Ferðamenn taka Noreg fram yfir Ísland

Verðlag hér á landi er orðið of hátt fyrir marga …
Verðlag hér á landi er orðið of hátt fyrir marga ferðamenn. mbl.is/Golli

Ásberg Jónsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, telur að stigvaxandi gengi krónunnar hafi gert það að verkum að Ísland sé orðið of dýrt.

„Við erum að upplifa mikla aukningu í sölu til Noregs, Lapplands og Skotlands. Það er ekki enn hægt að kalla þetta samdrátt en ferðamenn eru farnir að breyta ferðamynstri sínu með því að kaupa styttri ferðir,“ segir Ásberg Jónsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, í samtali við Morgunblaðið.

Ásberg telur að stigvaxandi gengi krónunnar hafi gert það að verkum að Ísland sé orðið of dýr áfangastaður og tapi í síauknum mæli ferðamönnum til nágrannalanda. „Ísland er orðið of dýrt. Við seljum mikið til Bandaríkjamanna og sá markaður er enn sterkur en ég óttast að samdráttur verði í komum Breta, Þjóðverja og Frakka,“ segir Ásberg. „Þegar verðið hækkar 20-30% milli ára er stór hópur sem fer frekar til Noregs eða Skotlands. Við erum farin að verðleggja okkur út af markaði.“

 Tekjur dragast saman

Hann segist hafa orðið var við aukningu í sölu síðasta haust sem skilaði sér inn á fyrri hluta þessa árs. Salan hefði átt sér stað á gamla genginu en eftir að gengið fór á þungt skrið hefði hægt á og ekki væri að sjá vöxt í tekjum milli ára. „Það eru kannski fleiri ferðamenn, og á meðan verðið á fluginu er lágt höldum við áfram að sjá fjölgun en tekjurnar á hvern ferðamann eru að dragast saman.“

Þá segir Ásberg að rekstur margra fyrirtækja í ferðaþjónustu sé lakari en búist var við. „Vandamálið er að verðið í erlendum gjaldmiðli er að hækka svo mikið. Við höfum reynt að tækla þessar kostnaðarhækkanir með því að hagræða í rekstri en í okkar tilfelli er reksturinn 2016 talsvert lakari en 2015.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert