„Eðlilegt að öll leyfi séu ekki komin“

Hægt er að smella á kortið til að þysja inn …
Hægt er að smella á kortið til að þysja inn og út. Kort/map.is

„Á þessum tímapunkti er eðlilegt að öll leyfi séu ekki komin,“ segir Friðrik Ólafsson, einn skipuleggjanda tónlistarhátíðarinnar Nig­ht + Day, sem fyrirhuguð er að verði haldin í landi Drangshlíðardals við Skógafoss 14. til 16. júlí. 

Óskað var eftir því að tónleikagestir gætu nýtt tjaldsvæðið við Skógafoss og aðstöðuna sem er þar á svæðinu. Það landsvæði er í eigu Rangárvallarsýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Því var hafnað á fundi héraðsnefndar á mánudaginn síðastliðinn.

Tónlistarhátíðin verður haldin í landi Drangshlíðardals sem er jörð í einkaeigu og er við Skógafoss. Friðrik bendir á að ef tónleikagestir geti ekki nýtt tjaldsvæðið við Skógafoss verði fundnar aðrar lausnir. Í Drangshlíðardal er ekkert tjaldsvæði.

Tónlistarhátíðin mun ekki hafa áhrif á eða hindra aðgang ferðamanna að Skógafossi, að sögn Friðriks.

Hann áréttar að hann hafi verið í góðu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu, meðal annars sveitarstjórn og bændur, og að allt verði gert til að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að halda tónlistarhátíðina. Næsta skref sé að halda áfram frekari samvinnu og finna heppilegustu lausnina. 

Hann segir skipulagið á þessari hátíð ekki frábrugðið því sem tíðkist á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem haldin hefur verið í Laugardal síðustu sumur og hann hafi tekið þátt í að skipuleggja. Þar hafa tónleikagestir nýtt tjaldsvæðið sem fyrir er í Laugardal en lokað hefur verið inn á tónleikasvæðið sjálft.  

Hljómsveitin The xx leggur sig eftir því að halda tónleika á stöðum þar sem ekki hafa verið haldnir tónleikar áður. 

„Þeir vilja vera eins umhverfisvænir og hægt er og vilja ganga frá svæðinu vel og skila því í sama ástandi og tekið var við því,“ segir Friðrik. 

Hluti af aðgangseyri hátíðarinnar verður settur í sjóð til að bæta aðstöðuna í kringum fossinn, að sögn Friðriks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert