Tveir pólskir karlmenn á fertugsaldri, sem handteknir voru fyrir að smygla talsverðu magni af sterkum fíkniefnum til landsins, verða áfram í gæsluvarðhaldi. Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um að framlengja varðhaldið um eina viku til viðbótar.
Fíkniefnin voru falin í bifreið sem annar mannanna kom með til landsins með ferjunni Norrænu. Þetta var á þriðjudagskvöld í þarsíðustu viku. Hinn maðurinn var þegar kominn til landsins.
Aðrir hafa ekki verið teknir höndum í tengslum við rannsókn málsins, samkvæmt því sem mbl.is kemst næst. Bifreiðin fór um borð í ferjuna í Hirtshals á Jótlandi í Danmörku.