Gísli Fannar Vilborgarson varð Íslandsmeistari í júdó í fyrsta sinn þegar hann hafði sigur í 73 kg flokki á Íslandsmóti karla og kvenna sem var haldið í Laugardalshöll 29. apríl. Úrslitaviðureignin endaði í bráðabana, svokölluðu gullskori, og þá vinnur sá sem skorar fyrst.
„Það var talið að ég væri lítilmagninn í úrslitunum en ég var búinn að æfa stíft, var meira að segja búinn að fara í æfingabúðir, og spilaði frekar öruggt. Ég þekki inn á hvernig andstæðingurinn glímir og passaði mig á að gefa honum ekki neina sénsa,“ segir Gísli Fannar. Hann er 23 ára gamall og hefur æft júdó frá 13 ára aldri. „Ég man að það kom miði inn um póstlúguna sem var auglýsing fyrir júdódeild ÍR. Þá ákvað ég að kíkja og hef verið að æfa síðan. Maður byrjaði seinna í þessu en margir aðrir.“
Gísli segir að vinsældir júdó á Íslandi hafi að sumu leyti dalað síðan hann byrjaði en undanfarið hafi hann tekið eftir vaxandi áhuga. „Það hefur verið mikil aðsókn í jiu-jitsu og blandaðar bardagaíþróttir. Þetta er svipað að því leyti að jiu-jitsu er eins og gólfglíman í júdó en þar er meira einblínt á gólfbrögð en við einbeitum okkur meira að standandi brögðum. Í júdó færðu bara nokkrar sekúndur til að klára andstæðinginn í gólfglímu en í jiu-jitsu geturðu tekið þér tíma,“ segir Gísli. Hann er ekki í vafa um að júdó sé ein besta sjálfsvarnaríþróttin.
„Ef maður lendir í átökum og það eru fleiri en einn á móti manni er júdó betri kostur upp á það að gera að maður getur verið standandi. Maður lærir kastbrögð og þá getur maður hent fólki og endað standandi. Þú getur yfirbugað andstæðinginn án þess að slasa hann.“
Ásamt júdóiðkun starfar Gísli sem skólaliði og júdóþjálfari, en hann reynir að skapa virkt félagslíf fyrir krakkana samhliða júdókennslunni, til dæmis með því að skipuleggja hópferðir í bíó. „Mér finnst það gera helling fyrir hópinn og ég hugsa að það haldi þeim lengur í þessu,“ segir Gísli. Næst á dagskrá er þátttaka í Norðurlandamótinu og Smáþjóðaleikunum í San Marínó.
Júdó þýðir „hinn mjúki vegur“ og á rætur að rekja til Japans. Það byggist á gripum og lásum úr glímu en sigur í keppni fæst með því að kasta andstæðingnum með tæknilega fullnægjandi kasti, halda honum í löglegu fastataki í 15 sekúndur eða að þvinga hann til uppgjafar með lás eða svæfingartaki. Einnig er hægt að vinna viðureign á stigum sem fengist hafa, meðal annars fyrir tæknilega ófullkomin köst ef tímamörk viðureignarinnar renna út. Árið 1967 var Júdófélag Reykjavíkur formlega stofnað en hafði þá verið æft og keppt um tveggja ára skeið. Fyrsta Íslandsmeistaramótið var síðan haldið 1971. Júdóiðkendur hafa belti í lit sem gefur til kynna hversu langt kominn iðkandinn er í greininni.