Forsetahjónin til Færeyja

Forsetahjón Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, kona …
Forsetahjón Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, kona hans. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og eiginkona hans, Eliza Reid halda í heimsókn til Færeyja á mánudag.

Í heimsókninni mun forseti eiga fundi með færeyskum ráðamönnum, skoða skóla og vinnustaði, halda fyrirlestur við háskóla Færeyja og efla kynni við Færeyinga með ýmsum hætti. Með í för verða utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, og Ágústa Johnson, kona hans, auk embættismanna.

Í upphafi heimsóknarinnar á forseti fund með Aksel V. Johannesen, lögmanni Færeyja. Þá skoðar forseti minjasafn í Miðvogi, fiskvinnslustöð á Vogey og þiggur kvöldverð í boði bæjarstjóra Sörvágs.

Á þriðjudaginn mun forseti flytja fyrirlestur í boði háskólans í Þórshöfn, Fróðskaparseturs Færeyja, og fjallar þar um landhelgisdeilur þjóðanna við grannþjóðir á liðinni öld og málefni hafsins í samtímanum. Þann dag skoðar forseti einnig gallerí og listasafn og heimsækir Nólsey skammt frá Þórshöfn.

Á miðvikudegi mun forseti eiga fund með forsvarsmönnum SEV, orkuveitu Færeyja. Stjórnendur hennar hafa sett sér áhugaverð markmið um umhverfisvæna orku, sem byggir öðru fremur á vindmyllum, enda er vatnsorka af mjög skornum skammti í landinu, segir í fréttatilkynningu frá embætti forseta Íslands.

Forseti mun eiga fund með ráðherrum Færeyja og heimsækja Lögþingið auk þess að fræðast um bókmenntastarf Færeyinga í húsi Williams Heinesens, hins ástsæla sagnaskálds. Þennan dag býður lögmaður Færeyja forsetahjónum til hátíðarkvöldverðar í Þórshöfn.

Lokadag heimsóknarinnar verður haldið til Klakksvíkur þar sem forseti skoðar sögufræga kirkju og heimsækir tvö fyrirtæki, Look North og Bakkafrost. Look North er fyrirtæki á sviði plastframleiðslu en Bakkafrost hefur verið leiðandi á sviði laxeldis í Færeyjum. Hjá Bakkafrosti mun forseti fræðast bæði um hinn mikla markaðsárangur fyrirtækisins og jafnframt með hvaða hætti það tekst á við umhverfisvandamál. Í Klakksvík þiggja gestirnir hádegisverðarboð bæjarstjórnar áður en haldið er til Þórshafnar þar sem forseti býður gestum til móttöku, bæði fulltrúum Íslendinga í Færeyjum, gestgjöfum og fulltrúum stjórnvalda.

Klakksvík er meðal viðkomustaða í opinberri heimsókn forseta Íslands til …
Klakksvík er meðal viðkomustaða í opinberri heimsókn forseta Íslands til Færeyja. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Regnbogi yfir stjórnarbyggingunum á Þinganesi í Þórshöfn í Færeyjum.
Regnbogi yfir stjórnarbyggingunum á Þinganesi í Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert