Sorglegt að fá svona mann til landsins

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar.

„Þetta eru okkar viðbrögð við komu Robert Spencer; að mæta og sýna að við stöndum vörð um mannréttindi hér á Íslandi,“ segir Sema Erla Serdar í samtali við mbl.is. Hún stendur fyrir samstöðufundi fyrir utan Grand hótel í kvöld á sama tíma og Robert Spencer heldur erindi þar innan dyra.

Spencer heldur þá fyrirlestur á vegum Vakurs, félags samtaka um evrópska menningu. Hann er þekktur fyrir harðskiptin skrif sín um íslam, hefur varað við „íslamsvæðingu“ vestrænna ríkja og hefur skrifað fjölda bóka um hana og hættuna sem hann telur stafa af múslimum.

Við höfnum málflutningi sem elur á ótta og hatri í garð minnihlutahópa. Við viljum sýna samstöðu með þeim sem þurfa að lifa við slíkt,“ segir Sema. Spencer hefur komist í kast við lögin og var til að mynda meinað að koma til Bretlands fyrir fjórum árum. Theresa May, núverandi forsætisráðherra og þáverandi innanríkisráðherra, óttaðist að erindi Spencer myndi valda óeirðum í landinu.

Sema segir að gleðin verði við völd á samstöðufundinum, þó að ástæða fundarins sé alvarleg. „Það verða fluttar ræður, leikin tónlist og gleðin mun ráða ríkjum. Við mætum til að senda þessi skilaboð og að mínu mati á málflutningur eins og mun fara fram þarna inni ekkert erindi við fólk á Íslandi. Það er ótrúlega sorglegt að fólk sé komið á þann stað að það fái þá hugmynd að flytja inn menn sem hafa lifibrauð af því að ala á ótta og hatri í garð fólks. Það er óásættanlegt. Við búum í lýðræðis- og réttarríki og grunngildin mannréttindi og mannúðarréttlæti eru í hávegum höfð. Við höfum ekkert að gera með fólk sem ætlar að traðka á þeim,“ segir Sema og bætir við að allir séu velkomnir á samstöðufundinn sem hefst klukkan hálfátta í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert