Um 500 mættu á fund um íslam

Frá Ýmishúsinu í Skógarhlíð.
Frá Ýmishúsinu í Skógarhlíð. mbl.is/Árni Sæberg
Robert Spencer.
Robert Spencer. Ljósmynd/Wikipedia

Á fimmta hundrað manns mættu á fund Vakurs, samtaka um evrópska menningu, á Grand hótel Reykjavík í kvöld. Fundarefnið var íslam og voru skiptar skoðanir á málefninu meðal fundarmanna, meðal annars mætti ímam múslima í Skógarhlíð til fundarins. Valdimar H. Jóhannesson, sem kom að skipulagningu ráðstefnunnar, segir fundinn hafa gengið prúðlega og greitt fyrir sig en mótmælin fyrir utan Grand hótel hafi skyggt á ráðstefnuna. 

Framsögumenn fundarins voru þau Robert Spencer og Christine Williams. Spencer hefur skrifað ótal bækur um íslam og fer fyrir vefsíðunni Jihad Watch. Williams starfar hjá kanadískri ríkisstofnun sem berst gegn kynþáttafordómum.

Valdimar H. Jóhannesson.
Valdimar H. Jóhannesson.

Vilja geta rætt málefnið á málefnalegum grunni

„Fundurinn fór mjög prúðmannlega fram og gekk fundurinn sjálfur afar vel. Margir fengu að tala og flestir virtu reglur sem gilda um svona fundi, lögðu fram málefnalegar og kurteisar spurningar,“ segir Valdimar og bætir við aðspurður að fundarmenn hafi viljað fræðast um áhrif íslam á Ísland.

Segir hann niðurstöðu fundarins vera að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af þróun íslam á Íslandi og mikilvægt sé að koma í veg fyrir hatursboðskap í moskum og halda íslenskum lögum og reglum að þeim sem aðhyllast íslamstrú. 

Valdimar segir að þrátt fyrir að einhverjir fundarmenn hefðu verið ósammála meirihluta þeirra hafi rökræðurnar farið fram á kurteisan hátt og öllum svarað málefnalega.

„Það er akkúrat það sem við viljum,“ segir Valdimar um að taka hófsama umræðu um þetta málefni á breiðari grundvelli.

Ýmis­húsið.
Ýmis­húsið. mbl.is/Árni Sæberg

Segir mótmælendurna hafa varnað fólki inngöngu

Valdimar gagnrýnir þó mótmælendurna sem mættu fyrir utan Grand hótel. Segir þá hafa varnað fólki inngöngu á fundinn, hrópað að gestum ókvæðisorð og einhverjir þeirra hafi verið ógnandi. Öryggisverðir voru við innganginn til þess að halda mótmælendum frá fundarmönnum.

Sema Erla Serdar, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, var ein þeirra sem stóð fyrir mótmælunum. Segir hún að með mótmælunum hafi mótmælendur vakið athygli á að Ísland sé lýðræðis- og réttarríki þar sem staðinn sé vörður um mannréttindi, mannúð, réttlæti og frelsi.

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar.

„Það er óásættanlegt að flytja til landsins einstaklinga sem hafa það að lifibrauði að ala á ótta og hatri. Við höfnum því og stöndum vörð um mannréttindi,“ segir Sema. Hún segir að mótmælendur hafi sama rétt til tjáningarfrelsis og þeir sem fyrir fundinum stóðu.

„Það má ekki gleyma því að funda- og tjáningarfrelsi gildir um alla. Að sjálfsögðu höfum við rétt til að nýta það eins og þau eru að gera,“ segir Sema. Hún telur að rúmlega 50 manns hafi mætt á mótmælin í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert