Kostnaðarþátttaka hvers sjúklings við meðferð sína nam rúmlega 114.000 krónum að meðaltali á síðasta ári, ef skoðaðir eru eingöngu þeir einstaklingar sem þurftu að greiða meira en 80 þúsund krónur. Kostnaður vegna lyfjakaupa er þá ekki meðtalinn.
Þetta kemur fram í svari Óttars Proppé heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
Ef eingöngu eru skoðaðir þeir einstaklingar sem voru með kostnað yfir 80.000 kr. á árinu þá nam fjöldi þeirra 18.852 kr. og meðalkostnaður hvers sjúklings nam rúmlega 114.000 kr. Hafa ber í huga að kostnaður vegna lyfjakaupa er ekki meðtalinn í þessum kostnaði.
Fram kemur þá að 1. maí hafi tekið gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra í heilbrigðisþjónustu.
Samkvæmt þessu nýja kerfi muni sjúkratryggðir ekki greiða meira en sem nemi ákveðnu hámarksgjaldi fyrir heilbrigðisþjónustu, að teknu tilliti til afsláttarstofns.
„Ákvörðun hámarksgjalds miðast einna helst við að vernda þá sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda, svo sem krabbameinssjúklinga, fyrir háum kostnaði vegna þjónustunnar.“
Hámarksgjald innan almanaksmánaðar verði þá 24.600 kr. hjá almennum sjúkratryggðum einstaklingi en 16.400 kr. hjá öðrum.
„Það leiðir til þess að enginn almennur sjúkratryggður greiðir meira en sem nemur 69.700 kr. á 12 mánaða tímabili ef tímabilið hefst án stöðu á afsláttarstofni og 49.200 kr. á ári ef tímabilið hefst á fullum afsláttarstofni, sem er hámark fyrir þá sem þurfa samfellda þjónustu,“ segir í svari ráðherrans.
„Hámarkskostnaður annarra yrði þá 46.467 kr. og 32.800 kr. miðað við sömu forsendur. Að auki er gert ráð fyrir gjaldfrjálsri þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga við börn sem fengið hafa tilvísun frá heimilislækni. Gert er ráð fyrir að margar barnafjölskyldur muni nýta sér það úrræði.“