Ungliðahreyfingar sex stjórnmálaflokka hafa sent frá sér sameiginlega ályktun þar sem viðvarandi fjársvelti íslenskra háskóla og vísindasamfélagsins er harmað.
„Undirritaðar ungliðahreyfingar harma viðvarandi fjársvelti íslenskra háskóla og vísindasamfélagsins og telja ástandið vera orðið grafalvarlegt.
Óumdeilt er að fjárfesting í menntun og rannsóknum skilar sér til baka með beinum áhrifum á framleiðni, hagvöxt og lífsgæði. Nýsköpun og þekkingarþróun munu verða grunnurinn að farsæld og samkeppnishæfni þjóða á komandi árum.
Sterkir háskólar sem stunda öflugar rannsóknir og kennslu, ásamt því að bjóða upp á fjölbreytt nám, eru því brýnt hagsmunamál núverandi sem og komandi kynslóða. Grunnurinn að því að geta tryggt gæði háskólanáms í landinu er að fjárframlög nái að minnsta kosti meðaltali OECD-ríkjanna.
Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna vilja því hvetja ríkisstjórnina og Alþingi til þess að bæta stöðuna með þverpólitískri sátt og skýrri framtíðarsýn í menntamálum og krefjast aukinna fjárframlaga til menntamála við afgreiðslu 5 ára fjármálaáætlunar. Aðeins þannig getur háskólastigið þróast og tekið framförum, framtíð okkar til heilla,“ segir í ályktun frá Sambandi ungra Framsóknarmanna, Ungliðahreyfingu Viðreisnar, Ungum Vinstri grænum, Ungum jafnaðarmönnum, Ungum Pírötum og ungliðum innan Bjartrar framtíðar.