„Þetta var mjög stór hópur, 30 til 40 krakkar úr öðrum hverfum sem höfðu safnast saman. Þau virtust hafa verið að leita að syni mínum. Þetta var mjög furðulegt allt saman,“ segir María Sólveig Magnúsdóttir, móðir 14 ára drengs í Langholtshverfi, sem varð fyrir líkamsárás í hverfinu síðastliðið laugardagskvöld, af hálfu jafnaldra, að hennar sögn. Drengurinn fékk einhverja áverka og er mjög hvekktur og kvíðinn.
„Ég fékk símtal frá lögreglunni um hálf níu á laugardagskvöld, þar sem mér var tilkynnt um þetta,“ segir María, en vegfarandi sem varð vitni að meintri árás hringdi á lögregluna. Skömmu síðar komu tveir lögreglubílar á staðinn. María veit ekki hvort gerendurnir náðust, en eftir því sem hún best veit keyrði lögreglan um hverfið í leit að þeim. Hún segir árásina hafa verið tilefnislausa og ekki haft neinn aðdraganda.
Lögregla staðfestir í samtali við mbl.is að tilkynnt hafi verið um hópslagsmál í Álfheimum á laugardagskvöld og að lögregla hafi farið á vettvang. Einhver átök virtust hafa átt sér stað og einn drengur var með kúlur á höfði eftir átökin. Málið er ekki komið til rannsóknardeildarinnar en þeir hafa nokkur nöfn gerenda á lista.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sonur Maríu verður fyrir árás í hverfinu, en hún segir einn af þeim drengjum sem réðst á hann á laugardagskvöld hafa ráðist á hann áður. Þá fyrir utan skólann hans. „Þegar þetta er farið að gerast ítrekað, í okkar hverfi, þá er þetta orðið mjög alvarlegt. Það hafa líka verið unnin mikil skemmdarverk í hverfinu. Þetta virðist vera einhver klíka sem er að gera allt vitlaust hérna. Það eru allir orðnir mjög þreyttir á þessu. Það er mjög alvarlegt þegar þetta er komið út í líkamsárásir og að fólk þori ekki út úr húsi af hræðslu við að það verði ráðist á sig. Það er alveg raunveruleg hætta á því. Það er mikið hangið hérna í hverfinu og beðið eftir því að sonur minn láti sjá sig.“
María segir þau ætla að kæra meinta árás, en ekki var lögð fram kæra þegar ráðist var á hann í fyrra skiptið. „Það hvetja okkur allir til þess að kæra núna, bæði lögregla og spítali. Maður veit ekkert hvaða afleiðingar kæra hefur en það verður þá kannski til að opna augu foreldranna
Sonur Maríu hlaut töluverða áverka og vinir hans, sem urðu vitni að árásinni, segja að hann hafi misst meðvitund um stund. „Honum var haldið niðri með hálstaki af einum dreng, á meðan fjórir eða fimm voru að kýla hann í bak og höfuð. Hann er marinn og með kúlur á höfði, en sálræna hliðin er alveg í rúst. Það eru mjög alvarlegar afleiðingar þar. Við vorum samt mjög heppin að fá tíma sálfræðingi strax og erum búin að hitta hann. Svo munum við fara í áfallamiðstöðina á mánudaginn, en þar er um að ræða áfallahjálp sem Landspítalinn veitir. Það er mikilvægt að grípa strax í taumana því annars geta afleiðingarnar orðið enn alvarlegri. Námsráðgjafinn í skólanum hefur líka verið mjög hjálpfús, hjálpað honum með slökun og fleira. Hann fær kvíðaköst þannig slökunin er mikilvæg.“
Eftir því sem María best veit er um að ræða jafnaldra sonar hennar, en sjálfur þekkir hann ekki nema nokkra af krökkunum. Hún veit ekki til þess að það hafi verið neinn aðdragandi að árásinni á laugardagskvöld en drengurinn sem réðst á hann í febrúar á að hafa gefið þá skýringu að sonur hennar hafi verið með stæla við hann ári áður.
Aðspurð segir María ekki um einelti að ræða enda sé sonur hennar félagslega sterkur og eigi marga vini. „Þetta virðist vera algjörlega út í bláinn.“