Íslendingar eru á réttri leið hvað varðar aðgerðir í loftslagsmálum en þurfa að gera meira og leggjast á eitt. „Við þurfum bara öll að skoða okkar neyslu,“ segir Vanda Úlfrún Liv Hellsing, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, en hún var meðal ræðumanna á ársfundi stofunarinnar í morgun.
Ársfundurinn bar yfirskriftina Loftslagsmál: Er runnin upp ögurstund? en þar fór Vanda m.a. yfir þau markmið sem Ísland hefur sett sér og hvaðan losun landans á gróðurhúsaloftegundum er að koma.
Íslendingar hafa samþykkt að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030, miðað við árið 1990. Markmiðið er sameiginlegt markmið Íslands, Evrópusambandsins og Noregs en nær ekki til losunar frá alþjóðaflugi né alþjóðasiglingum.
Losun Íslendinga á gróðurhúsaloftegundum jókst um 28% á árunum 1990 til 2015 en heildarlosunin 2015 skiptist þannig að 44% var af völdum svokallaðra iðnaðarferla, 37% vegna orkunotkunar, 14% vegna landbúnaðar og 5% vegna úrgangs. Inni í þessu er ekki alþjóðaflug, alþjóðasiglingar né landnotkun.
Að sögn Vöndu er í raun stefnt að tveimur markmiðum; að minnka losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um 43% árið 2030, miðað vð losunina árið 2005, og að minnka aðra losun um 30% árið 2030, einnig miðað við 2005.
Svokallað viðskiptakerfi nær til stóriðjunnar og virkar þannig að ef fyrirtækin ná ekki að draga úr losun verða þau að kaupa sér losunarheimild fyrir hvert losað tonn, segir Vanda.
„Það eru átta aðilar á Íslandi með losunarleyfi sem mega losa undir þessu kerfi,“ útskýrir hún, m.a. álverin. Þau sækja aukaheimildir í sameiginlegan pott sem mun minnka um 43% til 2030 en heimildirnar ganga kaupum og sölum á opnum markaði.
Hvað varðar þá hluta sem ekki falla undir viðskiptakerfið skiptist losunin á Íslandi þannig að orkan telur 61%, landbúnaðurinn 23% og úrgangur og iðnaðarferlar 8% hvor.
„Þessi kaka þarf að minnka um 30% fyrir öll ESB-ríkin, Ísland og Noreg,“ segir Vanda. „Það er búið að setja fram tillögu fyrir ESB-ríkin og þá eru ríkin að fá á sig núll og upp í 40% kröfu og það er líklegt að Ísland fái 35-40% kröfu á sig.“
Við ákvörðun losunarkrafanna er m.a. horft til þess hvernig ríkin standa fjárhagslega og hversu mikla möguleika þau eiga til þess að draga úr losun. Á tímabili Parísarsamkomulagsins, frá 2020 til 2030 verða líklega engin sérákvæði fyrir einstaka ríki en aðeins eitt ríki Evrópusambandsins þarf ekki að draga úr.
Í tillögum ESB er að finna ákveðin sveigjanleikákvæði en þau eru þó háð takmörkunum.
„Það er mikið rætt um bindingu og að við ætlum að nýta okkur bindingu til að ná markmiðunum okkar en í tillögum Evrópusambandsins er mjög ákveðið þak á því hversu mikið þú mátt nýta þér bindinguna til að standast skuldbindingar,“ útskýrir Vanda.
„Auðvitað getum við gengið lengra ef við viljum, það er gott fyrir andrúmsloftið, en það er ákveðið þak á því hversu mikið við getum talið bindinguna okkur til tekna. En það er ekki búið að semja við Ísland,“ bætir hún við, þ.e. um það hvert þakið verður fyrir Ísland.
En hvar eiga Íslendingar helst möguleika á að draga úr losun?
Vanda segir mestan árangur fólgin í því að hætta að brenna jarðefnaeldsneytum. Þar eru samgöngur stærsti þátturinn. Þá segir hún mikla möguleika liggja í úrgangsmálum en miklu munar á losun frá matvælum eftir því hvort þau eru urðuð eða notuð til jarðgerðar.
„Þar er tímaramminn langur,“ segir hún. „Maturinn sem þú hendir á morgun verður ennþá að losa eftir 20 ár. Það er allt öðruvísi en ef við breytum um orkugjafa í samgöngum; þá er það bara eitthvað sem gerist um leið og þú keyrir á nýja bílnum.“
Þá segir Vanda möguleika liggja í svokölluðum kælimiðlum sem notaðir eru um borð í skipum og á veitingahúsum en þar eru menn að horfa til þess að skipta út þeim lofttegundum sem verið er að nota og endurskoða búnaðinn.
Eins og er stendur yfir vinna hjá hinum opinbera sem snýr að lausnum í landbúnaði en Vanda segir þörf á því að uppfræða bændur um hvað þeir geta gert til að leggja sitt af mörkum.
En telur hún yfirstandandi aðgerðir hafa skilað árangri, til að mynda losunarkvótarnir í stjóriðjunni?
„Ég hef oft fengið þessa spurningu. [Fyrirtækin] eru búin að skila fyrir fjögur ár og við sjáum og heyrum bara á samtali við rekstraraðila að þeir eru að endurskoða alla verkferla,“ segir Vanda.
„Það koma alltaf óháðir vottunaraðilar til Íslands sem eru að taka út álverin og sambærilega stóriðju og í upphafi var mikil andstaða; þetta er flókið kerfi og þungt, en núna þegar við erum komin á fjórða árið erum við að sjá að þau kunna þetta og eru farin að sjá tækifæri í þessu því þetta sparar þeim líka peninga.“
Sérfræðingar Umhverfisstofnunar reiknuðu það út í vikunni að losun á hvern íbúa landsins hefði minnkað úr 10,2 tonnum í 8,12 tonn á árunum 2005 til 2015 en þá er um að ræða losun utan viðskiptakerfisins. Til samanburðar losaði hver íbúi Evrópusambandsins 5,8 tonn af CO2 árið 2005 og 5 tonn árið 2015.
En Vanda segir þetta skref í rétta átt.
„Maður þarf að vera jákvæður. Það að við erum að losa minna á hvern íbúa sýnir að við erum öll að gera eitthvað rétt. Við erum á réttri leið. Við þurfum bara að gera meira og þurfum öll að leggjast á eitt til þess að þetta gangi upp. Og við höfum tækifæri til þess; við eigum orkuna, við getum verið með rafmagnsbíla. Það eru til lausnir í úrgangsmálum. Þannig að við getum þetta alveg.“