Tölurnar koma Benedikt ekki á óvart

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Samtals er gert ráð fyrir að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna muni skila ríkinu 16 milljörðum árlega og því kemur það ekki á óvart að hlutur gistiþjónustunnar af því hefði getað verið tæplega 8 milljarðar. Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is, en fyrr í dag var birt skriflegt svar ráðherrans við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um möguleg áhrif af hækkun skattsins.

Benedikt segir að ráðuneytið hafi verið búið að leggjast yfir þessar tölur og segir hann þegar aðrar hliðar ferðaþjónustunnar séu teknar með horfi menn til þess að heildarvirðisaukaskattgreiðslur geirans hækki um tæplega 16 milljarða á ári. Samkvæmt svari ráðherrans námu skattgreiðslurnar síðustu tvö ár á bilinu 457-763 milljónir.

„Það má þó segja að það styrki mann frekar í þessu að sjá þær tölur sem hafa verið að koma um fjölgun ferðamanna,“ segir Benedikt spurður afstöðu sína til hækkunarinnar. Bendir hann á að áfram sé tugprósenta hækkun. „Það er það sem við erum að bregðast við.“

Benedikt bendir á að í fyrra hafi verðlag hækkað um 11%, sem sé hliðstætt væntanlegri hækkun vegna virðisaukabreytingarinnar. Samt sem áður hafi ferðamönnum fjölgað um 39% ofan á styrkingu gengisins. „Þessi grein virðis ekki vera mjög viðkvæm fyrir hækkunum á verðlagi,“ segir Benedikt, en bætir við að auðvitað spili meira þarna inn í, svo sem að orðspor Íslands hafi breiðst út.

Spurður hvort þessi hækkun muni skila sér til greinarinnar og innviðauppbyggingar segir Benedikt að þegar hafi verið kynnt um 5 milljarða hækkun í fjármálaáætlun í tengslum við samgöngumál og þá sé stefnt að því að efla löggæslu og nýlega hafi verið tilkynnt um fjölgun landvarða. Slíku starfi þurfi að halda áfram og þá sé aðkallandi að fara í uppbyggingu ferðamannastaða með bílastæðum, pöllum, göngustígum og fleiru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert