Bieber deildi myndinni um allan heim

Myndin góða sem Árni tók af Þrídröngum árið 2009.
Myndin góða sem Árni tók af Þrídröngum árið 2009. mbl.is/Árni Sæberg

Ljósmynd sem Árni Sæberg tók af Þrídrangavita árið 2009 fer nú eins og eldur í sinu um heimsbyggðina, meðal annars fyrir atbeina Justins nokkurs Biebers. Fleiri listamenn hafa heillast af myndinni gegnum tíðina, eins og Yrsa Sigurðardóttir sem Árni vill ólmur fá með sér út í dranginn.

Árni Sæberg ljósmyndari á Morgunblaðinu.
Árni Sæberg ljósmyndari á Morgunblaðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þú ferð ekkert úr stólnum fyrr en ég er búinn að sýna þér svolítið,“ sagði Jón Halldór Guðmundsson rakari við Árna Sæberg ljósmyndara á dögunum – og sneri aftur að bragði vopnaður tölvu. Og hvað var a’tarna? Ljósmynd sem Árni hafði tekið af Þrídröngum árið 2009 á þýskri síðu á netinu. Jón tengdi sérstaklega við myndina enda gaf Árni honum hana á sínum tíma og hangir hún uppi á vegg hjá honum. Ekki nóg með það, dóttir rakarans benti honum á þá áhugaverðu staðreynd að fólk út um allan heim væri að deila téðri mynd í gríð og erg á samfélagsmiðlum, þeirra á meðal ekki minni maður en sjálfur poppprinsinn og Íslandsvinurinn Justin Bieber. 

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur.
Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur. mbl.is/Árni Sæberg

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem myndin af Þrídröngum heillar fólk og veitir því innblástur. Árni rifjar upp söguna af því þegar hann var sendur að ljósmynda metsöluhöfundinn Yrsu Sigurðardóttur heima hjá henni. Hann var þá nýbúinn að lesa bók hennar, Ég man þig, og skalf og nötraði af spennu frá fyrstu blaðsíðu til hinnar síðustu. „Ég var við það að gera í brækurnar – einn í vetrarmyrkrinu heima. Sem betur fer var hundurinn hjá mér,“ rifjar Árni upp brosandi en Ég man þig er sem kunnugt er komin á hvíta tjaldið og hræðir þar líftóruna úr gestum þessa dagana.

Ég man þig gerist að hluta á Hesteyri og Árni sýndi Yrsu til gamans ljósmynd sem hann hafði tekið þar árið 1993. Þau settust niður og Árni sýndi rithöfundinum næst myndir frá Þrídröngum. „Hún rak strax upp stór augu og áttaði sig greinilega á því að hægt væri að láta mikinn hrylling eiga sér stað þarna,“ segir Árni. 

Justin Bieber á tónleikum í Kórnum.
Justin Bieber á tónleikum í Kórnum. mbl.is/Ófeigur

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka