Ungur fjölskyldufaðir á Norðurlandi fór að ráðleggingum miðils og keypti happdrættismiða hjá Háskólanum í lok síðasta árs. Í vikunni kom 50 milljóna króna vinningur á miðann. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HHÍ.
„Ung fjölskylda á Norðurlandi varð 50 milljónum króna ríkari eftir útdráttinn hjá Happdrætti Háskóla Íslands fyrr í vikunni. Fjölskyldufaðirinn sem fékk símtalið gleðilega frá happdrættinu á miðvikudagskvöldið kiknaði í hnjánum við fréttirnar og þurfti að fá sér sæti á gólfinu til að meðtaka þær.
Að sjálfsögðu varð hann gríðarlega kátur en gat um leið deilt því að honum hefði verið ráðlagt af miðli að kaupa sér happdrættismiða hjá Háskólanum í lok síðasta árs. Sagði miðillinn að hann yrði heppinn í peningamálum á árinu 2017 og sú varð aldeilis raunin. Hafði fjölskyldan heppna raunar spilað í happdrættinu um árabil en ekki með vinningsnúmerinu,“ segir í tilkynningu frá HHÍ.
Eftir þessar ráðleggingar setti fjölskyldufaðirinn sig í samband við Fjölumboðið á Akureyri og keypti vinningsmiðann og annan miða til.
Unga fjölskyldan ætlar að nota milljónirnar fimmtíu til þess að greiða niður skuldir og eiga sjóð til framtíðar.