„Þetta er sennilega vitlausasta framkvæmd í samgöngumálum sem hefur verið gerð,“ sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þegar rætt var um Vaðlaheiðargöng í Silfrinu á RÚV í hádeginu.
„Bara viðbótin er miklu hærri en kostnaður við Landeyjahöfn,“ bætti Páll við en komið hefur fram að ríkissjóður lánar Vaðlaheiðargöngum 4,7 milljarða til að ljúka gangagerðinni.
Upphaflegur samningur við Vaðlaheiðargöng hafi kveðið á um lán til að fjármagna gangaframkvæmdirnar fyrir allt að 8.700 m.kr. miðað við verðlag í lok árs 2011. Tafir við framkvæmd, vegna erfiðra aðstæðna hafi hins vegar valdið miklum kostnaðarauka.
„Þessi framkvæmd fer sennilega langleiðina í 20 milljarða. Það er búið að eyða 15-18 milljörðum og það verður að ljúka henni,“ sagði Páll.
Blaðamaðurinn Kristinn Hrafnsson sagði framkvæmdina dæmi um kjördæmapot. „Þetta er makalaus framkvæmd. Menn voru að búa eitthvað til og þetta voru bara bulltölur,“ sagði Kristinn og bætti við að það þyrfti að losa sig við einkafyrirtækið, en verkefnið er einkaframkvæmd í samstarfi við ríkið, og horfast í augu við staðreyndir.
„Þetta var pínt í gegn á pólitískum forsendum og var kjördæmapot. Steingrímur J. Sigfússon og Kristján Möller eiga þetta að mestu leyti skuldlaust. Nú er það hlutskipti Sjálfstæðismanna að losa þá úr snörunni,“ sagði Kristinn.