Nokkrir litlir jarðskjálftar mældust í Bárðarbunguöskju í nótt en að sögn sérfræðings Veðurstofunna er ekki talið að skjálftarnir séu undanfari óróa.
Stærsti skjálftinn varð klukkan 02:35 í nótt og mældist hann 3,5 stig. Skjálftarnir voru sex allt í allt en fyrstu skjálftarnir mældust klukkan eitt eftir miðnætti. Þrír litlir skjálftar mældust eftir stærsta skjálftann.
„Það eru engin merki um óróa eða neitt og þetta er ekki nein hrina. Þetta voru nokkrir skjálftar og ekkert meira, alla vega í bili,“ segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.