Engin svör, aðeins „skítkast“

Benedikt Jóhannesson á Alþingi.
Benedikt Jóhannesson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust afsökunarbeiðni frá Benedikt Jóhannessyni, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir að sérstakar umræður höfðu farið fram á Alþingi um söluna á Vífilsstaðalandi. Málshefjandi var Sigurður Ingi Jóhannsson.

„Það er engum sæmandi að tala með þeim hætti sem fjármálaráðherra gerði,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

„Annaðhvort eða“

Áður en krafan um afsökunarbeiðnina kom fram sagði Benedikt umræðuna um málið hafa komið sér á óvart. Hann sagði Sigurð Inga, sem væri grandvar og reyndur þingmaður, hafa hlaupið gjörsamlega á sig. Hann hafi talað til skiptis um allt of hátt verð við sölu ríkisins á landinu til Garðabæjar og um of lágt verð. „Auðvitað er þetta stefna Framsóknarflokksins, það er annaðhvort eða,“ sagði hann og gagnrýndi það að sala landsins hafi komið Sigurði Inga á óvart.

„Þetta var meira að segja samþykkt með atkvæði háttvirts þingmanns fyrir síðustu jól. Ég greiddi þessu ekki atkvæði,“ sagði Benedikt og bætti við að hann telji að menn eigi að styðja lög sem menn greiði sjálfir atkvæði með. „Það er ekki hægt að tala um að það hafi verið slæm sala þegar ríkið nýtur ábatans af jörðinni.“

„Vantar lundann í þennan samning“

Hann bætti við: „Auðvitað kemur þarna í ljós að þingmaðurinn háttvirtur ber sérstakan kala til þessa sveitarfélags því það eru engir fulltrúar á hans vegum í því sveitarfélagi. Þetta var samþykkt einróma af öllum bæjarfulltrúum sveitarfélagsins. En það er nefnilega þannig að það vantar milliliðina. Það er skoðun þingmanns að það vanti milliliðinn. Það vantar lundann í þennan samning. Það eru þau vinnubrögð sem háttvirtur þingmaður vill vinna. Ég vil hins vegar að ríkið og sveitarfélögin hjálpist að við að leysa húsnæðisvanda ungs fólks.“

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Trúði ekki eigin eyrum

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði að orð Benedikts væru dæmi um þegar stjórnmálamenn væru rökþrota og ati þá sem eru ekki sömu skoðunar auri.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist ekki hafa trúað sínum eigin eyrum. „Að það væri verið að líkja málflutningi ráðherra við lundafléttuna úr Hauck og Aufhauser-skýrslunni,“ sagði hún og krafðist afsökunarbeiðni frá ráðherra. Einnig lagði hún til að málið yrði tekið upp í forsætisnefnd.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svaraði ekki einni spurningu

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að Sigurður Ingi hafi lagt fram beiðnina um umræðuna degi eftir að greint var frá samningnum um Vífilsstaðaland. Sagði hún ráðherra hafa notað tímann til að drepa umræðunni og allri gagnrýni á dreif, ekki á þinginu heldur á Fésbókinni og í viðtölum. „Það er eitt sem kemur í hugann: Trumpisminn. Er það það sem við ætlum að innleiða hér?“ spurði hún.

Síðar bætti hún við að óásættanlegt væri að ráðherra hafi ekki svarað einni einustu spurningu sem beint var til hans. „Við biðum hér eftir svörum, fengum engin en fengum skítkast.“

„Formaður Viðreisnar kemur hér ítrekað upp með hroka og yfirlæti,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

„Þetta plan sem hæstvirtur ráðherra fór niður á er algjörlega fyrir neðan allar hellur.“

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skilur framkomuna

Sigurður Ingi steig í pontu og játaði að gagnrýni sín hafi verið hörð. „Ég skil að ráðherrann hafi verið rökþrota og ekki getað svarað slíkum spurningum.“

Hann hélt áfram: „Ég get líka skilið framkomu hæstvirts ráðherra. Hann hefur sýnt það svo margoft í þessum sal og ég á ekki von á því að hann biðji mig afsökunar.“

Í ræðu sinni um söluna á landinu sagði Benedikt að enginn vafi leiki um lögmæti sölunnar á landinu. „Salan var fagleg og þjónar hagsmunum ríkisins, Garðabæjar og almennings alls. Ríkið fær sanngjarnt verð fyrir landið.“ 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði margt vera óljóst við samninginn, sérstaklega varðandi söluandvirðið sem Garðabær greiðir á næstu átta árum. Hún sagði 57 milljónir á ári vera „gjafverð“ og að samningurinn sem Benedikt gerði hafi verið „arfaslakur“.

Sigurður Ingi spurði hvers vegna verðmat sem VSÓ Ráðgjöf gerði á landinu fyrir 16 árum hafi ekki verið haft til hliðsjónar við söluna á landinu. Það hafi verið 8 til 16 sinnum hærra en það mat sem gert var áður en samningurinn var undirritaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert