Til skoðunar er nú að ný Vestmannaeyjaferja, sem er í smíðum í pólsku skipasmíðastöðinni Crist S.A., verði að fullu knúin rafmagni. Við hönnun ferjunnar var gert ráð fyrir að hún yrði rafknúin að hluta.
„Já, upphaflega er nýja ferjan hönnuð þannig að hún er rafknúin að hluta. Allar hliðarskrúfur ferjunnar verða rafknúnar,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að hugmynd um að ganga lengra hafi kviknað nýlega, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Það hafa komið upp hugmyndir núna í smíðaferlinu um hvort ástæða væri til að ganga lengra jafnvel og að hún verði að fullu knúin rafmagni.“ Hann segir að það sé kostnaðarsamt. „Það fylgir því heilmikill kostnaður, það er gróflega áætlað að það muni kosta um 800 milljónir að ganga svo langt. Ég hef kynnt þetta en svo smíðin tefjist ekki þarf að taka ákvörðun um þetta atriði mjög bráðlega, eiginlega á næstu dögum. Smíðin er komin vel áleiðis og þar sem þetta kemur upp svona seint þarf að ákveða þetta fljótt.“