Flugvél frá flugfélaginu Vueling hætti við að lenda í Keflavík í kvöld, vegna slæmra veðurskilyrða eins og sagði á heimasíðu félagsins. Vélinni var lent í Glasgow í Skotlandi og farþegum tjáð að þeir muni fljúga aftur til Barcelona, þaðan sem þeir komu í kvöld.
Samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar eru aðrar flugvélar sem eiga að lenda í kvöld á áætlun.
„Við sitjum bara hérna í vélinni,“ segir Ellen Calmon í samtali við mbl.is en hún skrifaði færslu á Facebook klukkan 21.25 þar sem hún sagði frá því að vélin hefði lent í Skotlandi. Einnig sagðist Ellen vonast til að komast heim í kvöld.
Vélin átti að lenda í Keflavík 21.55 en samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar lendir næsta flugvél Vueling frá Barcelona í Keflavík klukkan 14.00 á morgun.
„Flugmaðurinn segir að hann ætli að fljúga aftur til Barcelona, annað fjögurra tíma flug. Það er verið að setja bensín á vélina,“ segir Ellen þar sem hún situr og bíður inni í vélinni.
„Eina sem við vitum núna er að við eigum að fara til Barcelona. Farþegarnir sem tala hér saman hafa meiri áhuga á því að gista hér í Glasgow í stað þess að fara í annað flug til baka.“
Uppfært klukkan 23:55:
Farþegar bíða enn í vélinni. Þeir geta farið úr í Glasgow en þurfa þá að finna sér gistingu á eigin kostnað. Kjósi þeir að gera það ekki fljúga þeir aftur til Barcelona í nótt og þaðan heim til Íslands í fyrramálið.