Fátækt stelur draumum barna

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert

„Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í umræðum um fátækt á Alþingi í dag. Hún skoraði á Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, að leggja fram sína sýn á þessi mál.

„Það skiptir máli í samfélagi þar sem við eigum allan þennan auð að við sem hér störfum tryggjum að allir búi við jöfn tækifæri. Ég hlýt að draga þá ályktun að kerfið ýti undir misskiptingu. Skattkerfið hefur létt á þeim ríkustu en þyngt á þeim fátækari,“ sagði Katrín.

Hún benti á að 9,1% barna á landinu liðu skort. Stór hluti byggi við óöruggt húsnæði, gæti ekki stundað tómstundir eða haldið upp á afmæli. „Fátækt stelur draumum barna.“

Katrín spurði hvernig ætti að huga að kjörum öryrkja og aldraðra. Hún benti á að stórir hópar þeirra fá minna en 300 þúsund krónur í laun en það verða lágmarkslaun frá og með næsta ári. „Hver króna skiptir máli. Hér eru hópar sem eiga ekki fyrir mat þegar líður á mánuðinn.“

Hvert fátækt barn er einu of mikið

Þorsteinn sagði að við gætum öll sammælst um að fátækt, sama hversu lítil hún mældist, væri of mikil í okkar samfélagi. „Við stöndum vel á alla mælikvarða,“ sagði Þorsteinn og benti til að mynda á að kaupmáttur þeirra verst settu hefði aukist.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Eggert

Hann sagði stjórnvöld vera að byggja upp félagslegt kerfi en stefnt væri á að byrja á 300-600 íbúðum á ári. 

Í alþjóðlegum samanburði stöndum við vel þegar kemur að mælikvörðum fátæktar og jöfnuðar. Við höfum búið við mikið hagsældarskeið og jöfnuður hefur aukist hér og er einn sá mesti í ríkjum OECD. Þeim sem búa við sárafátækt hefur fækkað en hvert það barn sem býr við sárafátækt er einu barni of mikið,“ sagði Þorsteinn.

Sérstakt að ræða fátækt núna

„Það er sérstakt að vera að ræða fátækt þegar allir mælikvarðar benda til þess að við stöndum okkur einna best,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði umræðu eins og þessa koma upp á um það bil tíu ára fresti.

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Árni Sæberg

Umræðan verður til í kringum stofnun enn eins Sósíalistaflokksins,“ sagði Brynjar og þá heyrðust þingmenn úr sal kalla að orð hans sýndu virðingarleysi gagnvart umræðunni. „Þetta virkar á mann eins og tækifæri til að koma sér á framfæri. Þessi trú sem maður finnur hér í salnum, leyfið mér að halda ræðuna, voðalega eruð þið viðkvæm,“ bætti Brynjar við.

Hann sagði að þegar gengi vel, þá væri sagt að einhverjir væru að taka frá öðrum. „Það breytir því ekki að það er alltaf ákveðinn hópur sem þarf að hugsa um og gæta að og verður svolítið á milli skips og bryggju. Tökum umræðu um hvað getum við gert fyrir þá en ekki að einhverjir séu vondir sem séu að taka frá okkur.

Katrín Jakobsdóttir málshefjandi þakkaði þingmönnum fyrir ágæta umræðu. „Nema þeim sem leit á hana sem brellu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert