„Ég hef annan metnað fyrir minn þingferil,“ sagði Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag þar sem hann ræddi um mætingu þingmanna Pírata á þingnefndarfundi. Tilefnið var ákvörðun þingmanna flokksins að yfirgefa nefndarfundi til þess að sitja krísufund í þingflokki sínum þar sem formaður og ritari hans sögðu af sér vegna ágreinings.
Pawel sagðist ekki hafa ætlað með því að gerast stimpilklukka fyrir aðra þingflokka. Hann hefði engan áhuga á því. „En ég neita því ekki að mér hefur stundum sárnað þessi umræða þegar því eru gerðir skórnir að stjórnarliðar mæti illa eða taki illa þátt í umræðum í þinginu, sérstaklega þegar maður lendir síðan í því, eins og í umræðu um fjármálaáætlun, að sitja undir slíkum ásökunum en tala síðan fyrir næstum því tómum sal undir lok kvölds.“
Tók hann fram að í mörgum málum á Alþingi ættu Píratar sér bandamenn þegar kæmi að netfrelsi, vímuefnamálum og persónuréttindum. „Ég er einn þeirra bandamanna þannig að ég mæli með því við Pírata, af því að það hefur verið hugmynd um að kalla þessa hreyfingu, Píratahreyfingu, á heimsvísu vinstri frjálshyggju, að þeir taki upp nýtt slagorð í þinginu: Minni fundarstjórn forseta og meiri frjálshyggju. Þá geta þeir treyst á að ég verði með þeim í þeirri vegferð.“