Algengara er að karlkennarar verði fyrir einelti, andlegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í starfi sínu en kvenkyns starfsfélagar þeirra.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun sem gerð var meðal félagsmanna í Kennarasambandi Íslands; kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum auk skólastjórnenda þar sem starfsumhverfi kennara var skoðað.
Þar kemur einnig í ljós að rúmlega 10% félagsmanna í sambandinu hafa orðið fyrir einelti undanfarin tvö ár, 5% hafa orðið fyrir hótunum eða líkamlegu ofbeldi í starfi sínu og 2% hafa sætt kynferðislegri áreitni. Gerandinn er í flestum tilvikum yfirmaður, en einnig er nokkuð um hegðun sem þessa af hendi nemenda eða foreldra, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Ásdís Ingólfsdóttir, formaður vinnuumhverfisnefndar KÍ, segir þessar niðurstöður koma verulega á óvart. „Þetta er talsvert meira en ég átti von á og ljóst að það þarf að kanna hvort einhverjir þættir í vinnuumhverfinu ýta undir þetta,“ segir hún.
Könnunin leiddi einnig í ljós að mikill meirihluti, eða 60% þessara mála, er ekki tilkynntur til næsta yfirmanns eða stéttarfélags.