Ólafur Ólafsson staðfestir að hann hafi notið fjárhagslegs ávinnings af hlut í Eglu eftir að samningar voru gerðir. „Já ég naut fjárhagsleg ávinnings af þessum viðskiptum en ég tek fram að það tapaðist allt saman.“ Þá staðfestir Ólafur að 4 milljarðar af söluandvirði hafi farið inn á hans reikning.
Ólafur var stjórnarformaður Eglu, stærsta einstaka aðila í kaupum S-hópsins svokallaða á tæpum helmingshlut í Búnaðarbankanum.
Hann á erfitt með að segja til um hve mikið þýski bankinn, Hauck & Aufhäuser, hagnaðist á kaupunum, en bankinn var skráður helmingseigandi í Eglu. Þýski bankinn átti hins vegar sinn hlut í skamman tíma og það rennir stoðum undir það að um málamyndagjörning hafi verið að ræða, að mati nenfdarinnar. Það liggur hins vegar fyrir að þýski bankinn hafi hagnast um 1 milljón evra í viðskiptunum.
Í niðurstöðu skýrslu rannsókarnefndarinnar kemur framn að ítarleg hafi gögn sýnt fram á það með óyggjandi hætti að Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu.
Raunverulegur eigandi hlutarins var aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, meðal annars frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.
Hlutabréfin, sem þýski bankinn keypti að nafninu til, voru síðar seld með milljarða króna hagnaði sem varð eftir á bankareikningi aflandsfélagsins Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Hagnaðurinn var greiddur út snemma árs 2006. Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndarinnar fékk aflandsfélagið Marine Choice Limited, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, rúmlega helming hagnaðarins. Tæpur helmingur fór hins vegar til félagsins Dekhill Advisors Ltd. en litar sem engar upplýsingar fundust um eignarhald þess félags.
Aðspurður segist Ólafur ekki kannast við félagið Wellington & Partners og fullyrðir að hafa aldrei átt hlut í því.