„Þegar staðreyndir eyðileggja frétt“

Ólafur segir stundum sagt að ekki megi láta sannleikann eyðileggja …
Ólafur segir stundum sagt að ekki megi láta sannleikann eyðileggja góða sögu. mbl.is/Ómar

Ólafur Ólafsson segir að ályktun rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á Búnaðarbankanum, að hann hafi blekkt íslenska ríkið í kaupum S-hópsins svokallaða, í kaupum á tæplega 50 prósenta hlut í Búnaðarbanka Íslands, ranga og að hún standist enga skoðun. Sú niðurstaða nefndarinnar sé tengd þeirri ályktun að þátttaka erlendrar fjármálastofnunar hafi verið grundvallarforsenda fyrir sölu á hlutabréfunum. Sú ályktun sé hins vegar einnig röng.

Ólafur segir að atburðarrás sem rakin er í skýrslu rannsóknarnefndarinnar vissulega studda af gögnum, en þau hafi hins vegar verið valin þannig þau hentuðu sögunni sem átti að segja. „Sagt er að ekki megi láta sannleikann eyðileggja góða sögu og allir blaða- og fréttamenn þekkja svekkelsið þegar staðreyndir eyðileggja frétt sem þeir eru með í höndunum.“ 

„Plús fyrir erlenda peninga“

Ólafur rekur svo atburðarrásina eins og hann vill meina að hún hafi verið. „Grundvallaratriði hvað þetta varðar er fundur sem S-hópurinn átti með einkavæðingarnefnd 28. ágúst 2002. Þar spurði ég Ólaf Davíðsson, formann einkavæðingarnefndar og ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti Davíðs Oddsonar, að því hvort það hefði áhrif ef erlend fjármálastofnun kæmi að kaupunum sem ráðgjafi eða meðfjárfestir. Ólafur svaraði því neitandi, svo væri ekki.“ Í fundargerð frá umræddum fundi segir hins vegar líka að Ólafur Davíðsson hafi sagt að „frekar væri gefinn plús fyrir erlenda peninga.“ Það átti því ekki að hafa áhrif á kaupin ef skipan hópsins breyttist þannig að erlendir fjárfestar kæmu inn. Hins vegar væri „plús fyrir erlenda peninga“.

Ólafur vill meina að í ályktunarkafla skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafi þessari staðreynd hins vegar verið snúið á hvolf, en þar segir: „Af fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu 28. ágúst 2002 má einnig ráða að forsvarsmenn S-hópsins hafi þá vakið máls á þessu atriði með því að upplýsa að „tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málinu sem ráðgjafar eða fjárfestar” og fengið það jákvæða svar frá formanni nefndarinnar að fremur en hitt væri gefinn „plús fyrir erlenda peninga.““ Tekur Ólafur upp úr skýrslunni.

„Hvað varðar erlenda peninga, þá árétta ég að kaupverð í viðskiptunum var að uppistöðu til í erlendri mynt, þ.e. Bandaríkjadollurum. Þarna er sem sagt grundvallarstaðreyndinni um forsendur einkavæðingarnefndar hvað varðar þýðingu erlendrar þátttöku snúið algerlega á hvolf með því að segja neikvætt svar jákvætt.“

Ekki hirt um mat HSBC

Þá bendir Ólafur á að skýrsluhöfundur hafi ekki hirt um að koma því til að skila að hæfi S-hópsins hafi verið metið af HSBC bankanum, sem var í hlutverki ráðgjafa íslenska ríkisins, en S-hópurinn var með hæsta boðið og kom betur út úr matinu þrátt fyrir að tekið hafi verið tillit til óvissu um aðkomu erlendrar fjármálastofnunar. Ólafur leggur fram mat bankans í greinargerð sinni. „þarna kemur skýrt fram að það var óvissa um hvort það yrði af einhverri erlendri þátttöku, sem sýnir glöggt að stjórnvöld voru réttilega upplýst af S-hópnum um að erlend þátttaka var ekki á hreinu.“

Þá telur Ólafur að hann sýni fram á það með óyggjandi hætti í erindi sínu að aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhauser hafi verið raunveruleg og ekki til málamynda. Hann telur upp nokkur atriði sem skipta máli í því samhengi:

  • Hauck & Aufhauser var hluthafi í Eglu hf.
  • Bankinn skráði sig fyrir og greiddi inn allt sitt hlutafé.
  • Bankinn skipaði sína menn í stjórn, m.a. sat bankastjórinn Peter Gatti í stjórn Eglu hf. fyrir hönd bankans.
  • Bankinn tók þátt í ákvarðanatökum og störfum Eglu.
  • Sem hluthafi í Eglu hf, bar þýski bankinn sem slíkur réttindi og skyldur samkvæmt íslenskum lögum gagnvart Eglu hf.
  • Hann átti rétt til arðs, fór með atkvæðisrétt í samræmi við hlutafjáreign sína og greiddi fyrir hlutafé sitt eins og áður sagði. Hann var þannig raunverulegur og réttur hluthafi í Eglu hf.

Samningar bankans ríkinu óviðkomandi

Ólafur segir það hins vegar allt annað mál, sem megi ekki rugla saman við þetta, að þýski bankinn hafi gert samninga við Kaupþing, um fjármögnun, takmörkun á hættu og fleira. „Þeir samningar sem voru ríkinu óviðkomandi og vörðuðu ekki hagsmuni þess, enda fékk það allt sitt greitt og staðið var við öll skilyrði kaupsamnings. Það var gagnkvæmur vilji hjá Hauck & Aufhauser og Kaupþingi að eiga viðskipti sín í milli. Öll samskipti á milli Kaupþings og Hauck & Aufhäuser voru bein og milliliðalaus. Þeir gengu sjálfir frá samningum sín á milli.

Samningar sem þeir gerðu voru alfarið á þeirra ábyrgð og ég hafði hvorki lesið þá né séð, fyrr en núna, í rannsóknarskýrslunni. Ég vissi hins vegar að þeir höfðu gert með sér samninga og hvert var megin inntak þeirra samninga. Hafi eitthvað verið í þessum samningum, sem ég fæ reyndar ekki séð, sem þeir áttu að upplýsa um, þá var það alfarið á þeirra ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert