Fordæmisgefandi fyrir fjölda mála

Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður.
Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru nátt­úr­lega meiri­hátt­ar tíðindi. Þetta eru tíðindi um það að málsmeðferð, sem hef­ur verið stuðst við á Íslandi í refs­ing­um í skatta­mál­um, stand­ist ekki mann­rétt­indi,“ seg­ir Gest­ur Jóns­son, lögmaður Jóns Ásgeirs Jó­hann­es­son­ar kaup­sýslu­manns. Málið gæti að sögn Gests haft for­dæm­is­gildi fyr­ir fjölda annarra mála hér á landi. Bæði varðandi mál sem þegar hef­ur verið dæmt í og eins mál sem enn eru til meðferðar í dóms­kerf­inu.

Frétt mbl.is: Íslenska ríkið braut gegn Jóni Ásgeiri

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að ís­lenska ríkið hafi brotið á mann­rétt­ind­um Jóns Ásgeirs með því að dæma hann í skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir rúm­um fjór­um árum fyr­ir skatta­laga­brot í rekstri Baugs og fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums. Dóm­stóll­inn féllst á það að dóm­ur­inn bryti gegn banni við end­ur­tek­inni málsmeðferð. Voru hon­um dæmd­ar bæt­ur ásamt Tryggva Jóns­syni sem einnig hlaut sömu málsmeðferð hér á landi.

Spurður hvort dóm­ur Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins kalli á nafla­skoðun hér á landi seg­ir Gest­ur að hann telji að svo hljóti að vera. „Þetta er ákveðið um­hugs­un­ar­efni í ljósi þess að árið 2010 kvað Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur upp dóm sem var efn­is­lega sá sami og hjá Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um núna og sner­ist um brot á regl­unni um bann við tvö­faldri refsimeðferð. Þeim dómi var snúið við í Hæsta­rétti sem leiddi til þess að málsmeðferðin hófst aft­ur og menn voru síðan dæmd­ir til refs­ing­ar í héraði og í Hæsta­rétti sem aft­ur varð síðan til­efni þessa máls.“

Hugs­an­lega hægt að leita í smiðju Svía

Héraðsdóm­ur var að sögn Gests að túlka dóm frá Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um frá ár­inu 2009. „Frá þeim tíma hefði maður haldið að menn hikuðu við það að halda áfram þess­ari málsmeðferð gagn­vart fólki en það hef­ur ekki gerst á Íslandi. Öfugt við það sem gerst hef­ur í öðrum lönd­um sem eru aðilar að Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu með sama hætti og Ísland. Það er búið að dæma hér alla­vega marga tugi manna og refsa með þeim hætti sem hlýt­ur að telj­ast and­stætt sátt­mál­an­um af sömu ástæðum.“

Gest­ur seg­ir fjöl­mörg dæmi um mál sem bíði í kerf­inu þar sem menn séu bún­ir að ganga í gegn­um refsi­ferli sem hljóti núna að þurfa að skoða hvað eigi að gera við. „Ég geng reynd­ar út frá því að þeir hljóti að falla frá þeim mál­um sem eru ákær­end­ur í þeim.“ Dóm­ur­inn nú gefi til­efni til þess að fólk í sömu stöðu og Jón Ásgeir geti farið fram á end­urupp­töku sinna mála. „Það er það sem gerðist til að mynda í Svíþjóð 2013. Þar kom sænski hæstirétt­ur­inn reynd­ar sam­an að eig­in frum­kvæði og dæmdi um það að sú refsimeðferð, sem var mjög sam­bæri­leg við það sem hef­ur verið hér, stæðist ekki kröf­ur Mann­rétt­inda­sátt­mál­ans.“

Fyr­ir vikið hafi þurft að taka upp nokk­ur þúsund mál þar í landi. „Þetta var mik­il vinna og mikið verk sem kostaði þá að fara í gegn­um þessa leiðrétt­ingu og kannski höf­um við ein­hverja fyr­ir­mynd þar að því sem þarf að gera á Íslandi.“ Spurður hvort þetta hafi þá ekki verið ljóst lengi seg­ir Gest­ur að niðurstaða Hæsta­rétt­ar hafi verið sú að þetta væri ekki ljóst. „Við höf­um haldið þessu fram all­an tím­ann. Mér finnst að þetta hafi mátt vera ljóst en ég ætla ekki að halda því fram að dóm­ar­ar við Hæsta­rétt hafi staðið svona að mál­um af öðrum hvöt­um en þeim að þeir hafi ein­fald­lega verið þessu ósam­mála. Ég geng út frá því.

Hins veg­ar sé mjög dap­ur­legt hversu lang­an tíma hafi tekið að kom­ast að niður­stöðu í þess­um efn­um en það væri nú bara hluti af til­ver­unni. Spurður hvort málið sé ekki ljóst núna seg­ir Gest­ur: „Það er núna al­veg ljóst.“ Spurður áfram hvort stætt sé á öðru en að fara núna ofan í saum­ana á þess­um mál­um seg­ir hann: „Ég held að það sé al­veg óhjá­kvæmi­legt.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert