Hæstiréttur dæmdi í dag Matvælastofnun til að greiða Kræsingum ehf. 600.000 krónur í málskostnað. Áður hafði héraðsdómur viðurkennt skaðabótaskyldu Matvælastofnunar vegna tjóns sem Kræsingar urðu fyrir vegna tilkynningar sem birt var á heimasíðu Matvælastofnunar fyrir fjórum árum.
Kræsingar kröfðust þess að réttur þeirra til skaðabóta yrði viðurkenndur vegna tilkynningar sem Matvælastofnun birti á heimasíðu sinni um niðurstöðu rannsóknar á kjötinnihaldi íslenskra matvara.
Matvælastofnun hafði meðal annars keypt eina pakkningu með tveimur kjötbökum frá Kræsingum og hafði rannsókn á þeim leitt í ljós að ekkert kjöt var í bökunum. Kom sú niðurstaða fram í umræddri tilkynningu, sem birt var á heimasíðu Matvælastofnunar.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að ljóst væri af ákvæðum laga um matvæli og reglugerðum settum samkvæmt lögunum, að það hefði verið á verksviði Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að annast um eftirlit með framleiðslu og dreifingu Kræsinga á matvælum. Þá hefði það verið sami eftirlitsaðili sem hefði haft heimild til þess að birta niðurstöður úr slíku eftirliti.
Matvælastofnun hefði því brostið heimild að lögum til að standa að birtingu tilkynningarinnar. Þá hefði þeim einnig borið að gæta þess að rannsókninni á vörum Kræsinga yrði hagað í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttarins og þess m.a. gætt að fullnægjandi rannsókn færi fram og þar með útilokað að um einstaka mistök eða óhappatilvik væri að ræða.
Rannsókn á innihaldi einnar pakkningar af nautabökum Kræsinga hefði ekki getað talist fullnægjandi grundvöllur þeirrar opinberu upplýsingamiðlunar um framleiðslu Kræsinga sem átti sér stað í framhaldinu. Hefði að minnsta kosti mátt gera þá kröfu að slík rannsókn yrði endurtekin með frekari sýnatöku áður en almenningi væri kynnt að umrædd vara Kræsinga væri haldin þeim ágalla sem fullyrt var.
Hefði meðferð málsins samkvæmt því einnig verið haldin slíkum annmörkum af hálfu starfsmanna Matvælastofnunar að skilyrðinu um saknæmi væri jafnframt fullnægt. Var niðurstaða héraðsdóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Matvælastofnunar því staðfest.