Þetta er fyrsti sigurinn

Veggjatítlur eru algengari en fólk gerir sér grein fyrir.
Veggjatítlur eru algengari en fólk gerir sér grein fyrir. Kristinn Ingvarsson

„Fyrir okkur er þetta fyrsti sigurinn, að fá bæinn til að rífa húsið og fá pening fyrir deiliskipulagi,“ segir Ingvar Ari Ara­son í samtali við mbl.is. Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í morgun að styrkja hjónin Ingvar og Önnu Gyðu Pétursdóttur um 3,7 milljónir króna til að rífa hús þeirra við Austurgötu 5.

RÚV greindi frá málinu. Ingvar og Anna misstu aleiguna eftir að upp komst um veggjatítlu í íbúð þeirra en þau eiga þrjú börn og keyptu húsið fyr­ir um fimm árum

Ingvar segir að 600.000 krónur fari í deiliskipulag vegna nýs húss, sem þau hyggjast byggja við Austurgötu 5. Afgangurinn, allt að 3,1 milljón, fer í að rífa húsið. Hann telur að eini raunhæfi kosturinn fyrir þau sé að byggja nýtt hús, í stað hins gamla.

Fáránlegt að þurfa að draga aðra fjölskyldu í svaðið

Ingvar segir að fram undan sé full vinna og meira til. „ Nú heyrum við í fyrri eigendum. Það virðist vera eina málið sem við höfum, að fara í eitthvert mál við fyrri eigendur vegna þess að þetta heitir víst leyndur galli. Það er algjörlega fáránlegt að þurfa að draga einhverja aðra fjölskyldu úr Hafnarfirði í svaðið,“ segir Ingvar og bætir við að ekkert sé að hafa úr tryggingum.

„Við þurfum að reyna að láta Benedikt fjármálaráðherra standa við stóru orðin,“ segir Ingvar en fjármálaráðherra sagði í lok apríl að það ætti að kanna hvort hægt væri að bæta tjón hjá fólki sem verður fyrir eignatjóni vegna veggjatítlu.

Vona að lánið verði fellt niður

Við erum orðin ansi svartsýn á eitthvað fleira. Fjármálastofnun sem lánaði okkur pening fyrir húsinu er að skoða hvort þeir felli niður lánið. Við krossum fingur fyrir því og það væri algjörlega frábært. Þá erum við komin á núllið; búin að tapa öllu en þá þurfum við ekki að borga af láni af engu og byggja nýtt.“

Ingvar segir að hjón í Hafnarfirði hafi boðist til að leigja þeim íbúð, eftir að fjöldi fólks deildi raunasögu þeirra á Facebook. „Við erum búin að sofa í henni í tvær nætur eftir margra daga vinnu um hvernig við ætluðum að taka búslóðina út. Það kom í ljós að við fengum að frysta hana og taka meirihlutann af henni með.“

Hann segir að málinu sé hvergi nærri lokið. „Ég trúi ekki öðru en að það verði fullt af öðrum sigrum.“

Hægt er að styrkja fjölskylduna. Styrkt­ar­reikn­ing­ur­inn hef­ur reikn­ings­núm­er 0544-04-762504 og er stílaður á kenni­tölu Ingvars, 211077-4849. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert