Aukning á kynsjúkdómum áhyggjuefni

Þórólfur segir að auka þurfi prufur og sýnatökur hjá fólki …
Þórólfur segir að auka þurfi prufur og sýnatökur hjá fólki sem er talið vera í áhættu og auka aðgengi að prófum. AFP

„Þessi aukning á kynsjúkdómum er áhyggjuefni og við erum að fylgjast vel með henni,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Í farsóttaskýrslu sóttvarnalæknis sem birt var í gær kom meðal annars fram að á síðasta ári hafi orðið marktæk aukning á fjölda einstaklinga með HIV-sýkingu, lekanda og sárasótt.

„Þessi fjöldi sem hefur verið að greinast með HIV tók kipp á síðasta ári. Það var reyndar svipaður fjöldi fyrir nokkrum árum svo það kann að vera að þetta sé einstaka toppur. Faraldsfræðin á Íslandi er stundum svona upp og niður en við vitum ekki alveg af hverju þetta er,“ segir Þórólfur, en eins og fjallað var um á mbl.is í gær greindust 27 einstaklingar með HIV-sýkingu árið 2016 sem eru tvöfalt fleiri en á árunum 2014 og 2015. Af þeim sem voru sýktir voru 7 samkynhneigðir, 7 gagnkynhneigðir og 6 með sögu um sprautunotkun. Þórólfur segir að þó sé ekki aðeins um að ræða smit innanlands. Hluti þeirra sem greinst hafa séu erlendir einstaklingar sem flutt hafa til Íslands en þegar verið smitaðir.

Vitund heilbrigðisstarfsmanna ekki nægileg

„Þessir áhættuhópar sem eru þarna að greinast eru 30% karlar sem hafa kynmök með öðrum karlmönnum, 30% fíkniefnaneytendur og 30% gagnkynhneigðir en við höfum enga eina skýringu á þessum toppum í öllum þessum hópum. Kannski er þetta bara eitthvað tilfallandi en kannski ekki og við munum vonandi fá betri upplýsingar um það ef þetta er eitthvað viðvarandi,“ segir hann.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Þá voru óvenjumarg­ir, eða fjór­ir ein­stak­ling­ar, sem greind­ust með al­næmi sem er loka­stig sjúk­dóms­ins. Að auki voru þrír ein­stak­ling­ar með merki um langt geng­inn sjúk­dóm. Kemur fram í skýrslunni að það bendi til þess að HIV-smit fari lengi dult hjá mörg­um ein­stak­ling­um, sem sé áhyggju­efni. Þórólfur segir að þetta geti verið vísbending um það að vitund heilbrigðisstarfsmanna sé kannski ekki nægileg.

„Kannski líta menn svo á að þessi sjúkdómur sé genginn yfir en það bendir til þess að heilbrigðisstarfsmenn hafi ekki alveg verið að kveikja á þessu. Við höfum svo sem sent viðvaranir inn í heilbrigðiskerfið og beðið menn um að hafa þetta í huga sem mismunagreiningu hjá fólki sem kemur inn með sín veikindi,“ segir hann og bætir við að embættið hafi vakið athygli á vandamálinu og vonist hann til þess að það skili sem mestum árangri.

Sárasótt muni fara yfir í gagnkynhneigða hópinn

Þá kemur fram í skýrslunni að aukning á lek­anda og sára­sótt hafi einkum orðið meðal karl­manna sem stunda kyn­líf með körl­um. Þórólfur segist hafa miklar áhyggjur af þessari aukningu á sárasótt enda sé um að ræða alvarlegan sjúkdóm sem getur til að mynda valdið miklum skaða á fóstrum hjá þunguðum konum.

„Þrátt fyrir að þetta hafi mestmegnis greinst hjá karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum mun þetta fara yfir í gagnkynhneigða hópinn svokallaða ef þessi þróun heldur áfram,“ segir Þórólfur og bætir við að þessi aukning sjáist einnig í öðrum vestrænum ríkjum.

Aðspurður um það hvort aukin kynfræðsla í skólum geti einnig …
Aðspurður um það hvort aukin kynfræðsla í skólum geti einnig verið mikilvægt skref segir Þórólfur að slíkri fræðslu þurfi að huga að, en það sé hugsun til lengri tíma. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Við erum ekki endilega að sjá að þetta sé alveg bundið við þennan hóp nema kannski rétt í byrjun svo ég held að við þurfum að vera alveg viðbúin því að þetta sé ekki bara hjá þessum körlum heldur fari þetta yfir til kvenna líka. Ég tel miklar líkur á því,“ segir hann. Erfitt sé að segja hvað valdi því að sjúkdómurinn hafi að mestu leyti verið að greinast hjá karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum en nokkrar ástæður hafi verið nefndar.

„Þessi hópur hefur verið mjög hræddur við HIV sýkinguna og menn hafa passað sig mjög vel. Það kann að vera að þegar það er komin svona góð meðferð við HIV sjúkdómnum sem gerir menn nánast ósmitandi að menn gæti kannski ekki að sér í kynlífi og passi sig ekki nógu vel og noti ekki verjur. Þetta er líklega ein af skýringunum,“ segir Þórólfur.

Vinna að því að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma

Fyrr á þessu ári skipaði Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, starfshóp til að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi, en hlutverk hópsins er að setja fram tillögur um aðgerðir til að bregðast við þessari auknu útbreiðslu. Þórólfur er formaður hópsins og segir hann vinnuna vera í fullum gangi og tillögum verði líklega skilað eftir sumarið.

„Hópurinn er ekki kominn með tillögur en það eru margir hlutir sem þarna þarf að huga að; fræðsla og aukin vitundarvakning og svo framvegis. Það þarf til dæmis að auka prufur og sýnatökur hjá fólki sem er talið vera í áhættu og auka aðgengi að prófum. Það eru fjölmargir hlutir sem þarf að huga að og hópurinn er að skoða,“ segir hann.

Aðspurður um það hvort aukin kynfræðsla í skólum geti einnig verið mikilvægt skref segir Þórólfur að slíkri fræðslu þurfi að huga að, en það sé hugsun til lengri tíma. „Þetta er líka spurning um hvað hægt er að gera hér og nú til að stemma stigu við þessu og hvernig er hægt að viðhalda því og ná árangri til lengri tíma. Þetta mega ekki bara vera átaksverkefni,“ segir hann að lokum.

Mark­tæk aukn­ing varð á fjölda ein­stak­linga með HIV-sýk­ingu.
Mark­tæk aukn­ing varð á fjölda ein­stak­linga með HIV-sýk­ingu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert