Ber ekki að tilkynna óeðlilega lyfjaávísun

Magnús telur ekki þörf á tilkynningarskyldu þegar lyfjafræðingur verður var …
Magnús telur ekki þörf á tilkynningarskyldu þegar lyfjafræðingur verður var við óvenjulega lyfjaávísun. mbl.is/Kristinn

Lyfjafræðingi ber ekki skylda til að tilkynna það til embættis landlæknis ef hann verður var við óvenjulega eða óeðlilega lyfjaávísun frá lækni. Til dæmis þegar hann telur að um rangt lyf sé að ræða eða ranga skammtastærð. Hann á hins vegar ekki að afgreiða lyfið nema að höfðu samráði við lækninn. Þetta segir Magnús Jóhannsson læknir sem hefur eftirlit með lyfjaávísunum hjá landlæknisembættinu.

Magnús telur ekki þörf á slíkri tilkynningaskyldu, enda fái lyfjafræðingur í langflestum tilfellum leiðréttar upplýsingar um lyfjaávísun frá lækni, ef þörf er á. Í sumum tilfellum telji læknirinn hins vegar þörf á annarri skammtastærð en venjan er að ávísa. Óvenjuleg lyfjaávísun getur því verið rétt, í einhverjum tilfellum.

„Ef lyfjafræðingur verður var við eitthvað einkennilegt við lyfjaávísun, sem hann á að fylgjast með samkvæmt lögum og reglugerðum, á hann ekki að afgreiða hana. Hann á að hafa samband við lækninn sem ávísaði lyfinu og fá annaðhvort leiðréttingu eða staðfestingu á að ávísunin sé rétt,“ útskýrir Magnús.

Sjaldgæft að öryggisventill bregðist

Fréttablaðið greindi í vikunni frá því að tveggja ára gamalli stúlku hefði verið ávísað banvænum skammti af ofnæmislyfinu Atrax. Það var læknir á Læknavaktinni sem ávísaði lyfinu fyrir mistök í töfluformi í stað mixtúru. Læknirinn fór línuvillt við gerð rafræns lyfseðils og skammtastærðin sem stúlkunni var ávísað var því margföld. Lyfjafræðingur afhenti lyfið svo fyrir mistök.

Magnús hvetur fólk til að lesa alltaf fylgiseðil með lyfjum, …
Magnús hvetur fólk til að lesa alltaf fylgiseðil með lyfjum, sérstaklega þegar um börn er að ræða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Magnús segir þetta grafalvarlegt mál og það sé að sjálfsögðu tilkynningarskylt enda hafi öryggisventill brugðist. „Okkar mat er þannig að þetta er tilkynningarskylt. Það sem varðar lækninn til landslæknisembættisins og það sem varðar apótekið og lyfjafræðinginn til Lyfjastofnunar. Í raun ætti að tilkynna þetta til beggja aðila.“ Magnús gerir hins vegar ráð fyrir að landlæknisembættið eigi eftir að fá nánari gögn um atvik stúlkunnar.

Hann segir ekki til tölur yfir það hjá embættinu hve oft atvik af þessu tagi koma upp, þar sem læknir skrifar út ranga lyfjaávísun og lyfjafræðingur, sem ætti að vera öryggisventill, afhendir lyfið. „Sem betur fer er þetta rosalega sjaldgæft. Ég kannast ekki við þær tölur, sem betur fer. Svo geta auðvitað verið einhver tilvik sem við vitum ekki um. Oft eru svona mistök alveg meinlaus og þá tekur enginn eftir því. Viðkomandi fékk kannski rangan skammt eða rangt lyf en það hafði engin áhrif.“

Til skoðunar að setja upp girðingar 

„Samkvæmt umræddri frétt var um að ræða rafræna ávísun, en það er vissulega hægt að gera mistök á pappír líka. Möguleikinn á mannlegum mistökum hefur því alltaf verið fyrir hendi. Að mínu mati er því ekki meiri hætta á mistökum í þessu rafræna umhverfi.“

Magnús segir hins vegar endalaust hægt að bæta rafræna kerfið og það er komið til skoðunar hjá landlækni. „Þetta atvik verður til þess að það verður farið yfir þetta. Hvort hægt sé að setja upp einhverjar girðingar í lyfjaávísanakerfið. Ein hugmynd sem hefur komið upp núna, sem er bæði gömul og ný, er að þegar um börn er að ræða þá opnist gluggi þar sem lækninum er bent á að fara varlega,“ segir Magnús sem vill að lokum hvetja fólk til að lesa alltaf yfir fylgiseðil lyfja, sérstaklega þegar um börn er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert