Vín fari ekki í matvöruverslanir

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Eitt meginmarkmið frumvarpsins, eins og meðal annars fram í greinargerðinni með því, er að afnema úrelta einokun ríkisins á smásölu áfengis. Við sögðum þá flutningsmenn frumvarpsins að við endanlega útfærslu þess myndum við alltaf taka mið af ábendingum og gagnrýni og þeirri umræðu sem myndi koma fram um málið.“

Þetta segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en drög að nefndaráliti verða lögð fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í dag um verulegar breytingar á svonefndu áfengisfrumvarpi sem hann er fyrsti flutningsmaður að. Málið hefur verið unnið af nefndarmönnum er reiknað með að meirihluti sé fyrir því að afgreiða málið úr nefnd á grundvelli þeirra breytinga.

Frétt mbl.is: Mikið breytt áfengisfrumvarp

Teitur segist aðspurður vera sáttur við breytingarnar sem mbl.is fjallaði um fyrr í dag. Þar hafi ljóslega verið lögð áhersla á að koma til móts við þær ábendingar og athugasemdir sem komið hafi fram. Meðal annars sé gert ráð fyrir að áfengi fari ekki í matvöruverslanir, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu og var mikið gagnrýnt.

Þess í stað verði áfengi einungis selt í sérverslunum á vegum einkaaðila í eðlilegri samkeppni við Vínbúðir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) sem verði áfram starfræktar. Þar sé meðal annars verið að koma til móts við áhyggjur af starfsöryggi starfsmanna ÁTVR, íbúa á landsbyggðinni sem hafi þar með óttast lakari þjónustu og lýðheilsusjónarmið.

„Mér virðist nefndin hafa unnið vel úr málinu, fengið fjölmargar umsagnir og gesti og viðhaft almennt séð vönduð og málefnaleg vinnubrögð. Það var viðbúið að fram kæmu tillögur um að stíga varlegar til jarðar og það er sjálfsagt þegar um er að ræða mál sem fólk hefur sterkar skoðanir á og felur í sér ákveðna kerfisbreytingu að það sé reynt að gera það í sem víðtækastri sátt. Þannig að ég er bara ágætlega ánægður með þessar tillögur.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segist í samtali við mbl.is eiga von á því að meirihluti sé fyrir breyttu frumvarpi í nefndinni. Verði málið afgreitt úr nefndinni fer það til annarar umræðu á Alþingi en ræða þarf frumvörp í þremur umræðum til að þau nái fram að ganga.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert