Ástandið í Framsókn gæti verið betra

Sigurður Ingi í pontu í morgun.
Sigurður Ingi í pontu í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástandið í Framsóknarfloknum gæti vafalítið verið betra, en í „lifandi flokki, sem vill og ætlar að vera stór flokkur, eiga að rúmast margar skoðanir og stundum mismunandi, þótt grunnstefið sameini okkur.“

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á vorfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag. Þegar Sigurður kláraði ræðu sína stóðu flestir fundargestir upp og klöppuðu. 

Í ræðu sinni sagði Sigurður flokkinn boða að hann starfi á grunni samvinnu. „En upp koma tilvik þar sem við erum ekki sammála og það er bæði hollt og gott - bæði flokknum og okkur fólkinu sem í honum starfar. Rökræðan skerpir niðurstöðuna,“ sagði Sigurður og bætti við að í lok dags ákveði þau sig með lýðræðislegum hætti. „Við kjósum og hlítum niðurstöðunni. Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu, það á einnig við um flokkinn okkar.“

 „Ekki sérlega framsóknarleg nálgun“

Sigurður sagði það ekki virðast öllum gefið að geta sætt sig við það sem flokksmenn ákveða með lýðræðislegum aðferðum. Vitnaði hann í grein í Morgunblaðinu í gær þar sem að sögn Sigurðar mátti lesa með hvaða augum sumir líta Framsóknarflokkinn og ákvarðanir flokksmanna.

„Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni,“ sagði Sigurður.

„Það sem ég spyr mig að er; er þetta samvinnumaður sem talar svona,  þetta er ekki  sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrý“? Hinn almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi?“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlýðir á ræðu Sigurðar Inga.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlýðir á ræðu Sigurðar Inga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skilur vel að einhverjir hafi orðið sárir

Sagði Sigurður að á flokksþinginu í haust, þar sem hann var kjörinn formaður, var tekist á. „Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt,“ sagði formaðurinn og bætti við að hann skildi vel að einhverjir hafi orðið sárir og að það taki tíma að heila þau sár. „Ég skil að það geta ekki allir verið ánægðir öllum stundum og ég geri ekki kröfu um slíkt.“

En hann sagðist eiga erfitt með að skilja þá sem gera óánægjuna að sínum helsta vini og félaga. „Að mínu viti er það hvorki í eðli né anda Framsóknarflokksins að standa þannig að málum,“ sagði Sigurður.

„Ástandið gæti vafalítið verið betra í flokknum okkar, en í lifandi flokki – sem vill og ætlar að vera stór flokkur – eiga að rúmast margar skoðanir og stundum mismunandi, þótt grunnstefið sameini okkur.“

Hefur á tilfinningunni að sumir tali upp ágreininginn

Sigurður sagði að sumir hafi valið að koma fram opinberlega og lýsa þeirri skoðun að órói sé mikill í flokknum. Sagðist hann vita að það eru skiptar skoðanir, en að stundum hafi hann það á tilfinningunni að verið sé að tala upp ágreininginn. „Hvaða tilgangi þjónar það?“ spurði Sigurður.

Það á að vera gaman að vera í Framsókn

Sagði hann forystu flokksins hafa eðlilega áhyggjur af ástandinu og hafi lagt sig eftir að hlusta og bregðast við eftir atvikum. „Við þurfum kæru vinir að finna leiðir til sameiningar en ekki sundrungar. Og allir þurfa að spyrja sig hvernig getur framlag mitt orðið til þess að efla einingu og styrkja flokkinn; hvernig er hægt að leggjast á árar með félögum sínum?“ sagði Sigurður.

Sigurður sagðist telja að allir þeir sem bjóða sig fram undir merkjum Framsóknarflokksins skuldi almennum félagsmönnum og fylgjendum þeirra öllum, að þeir berjist sameiginlega fyrir hugsjónum flokksins.

„Og það hefur áður verið sagt, og skal hér endurtekið; Framsókn hefur ætíð vegnað best þegar framsóknarfólk stendur saman. Og gleymum því ekki, það á að vera gaman að vera í Framsókn!“ sagði Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert