Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir borgarlínuna munu geta tengt Vatnsmýrina við nýjan flugvöll, til dæmis í Hvassahrauni, þegar Reykjavíkurflugvöllur hafi vikið fyrir nýrri byggð.
Borgarlínan er áformað kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og er áætlað að 1. áfangi kosti 30-40 milljarða 2019-2022.
Dagur segir borgarlínuna munu skapa tækifæri til að þétta byggð í Reykjavík enn frekar en nú sé áformað. Fyrirhugað íbúðarhverfi í Keldnaholti verði ekki byggt nema með tengingu við borgarlínuna. Þar geti búið fimm þúsund manns. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Dagur þungann í uppbyggingu Reykjavíkur á næsta áratug verða meðfram borgarlínu.