Así og Flugfreyjufélagið hafa boðað vinnustöðvun um borð í vélum flugfélagsins Primera Air Nordic í september næstkomandi. Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera, telur vinnustöðvunina skemmdarstarfsemi og íhugar málsókn. Engin réttindi séu brotin á starfsfólki. Vinnumálastofnun telur sig ekki hafa lögsögu í málinu en því er ASÍ ósammála.
Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) og ASÍ hafa boðað verkfall flugliða um borð í vélum Primera hér á landi 15. september og hafa gagnrýnt fyrirtækið og yfirvöld, þar sem þau telja að réttindi flugliða séu ekki virt um borð í vélunum. Í yfirlýsingu frá ASÍ og FFÍ er fullyrt að starfsfólk Primera Air Nordic sé langt undir íslenskum lágmarkslaunum auk þess sem það njóti ekki ýmissa réttinda sem lög- og kjarasamningsbundin eru hér á landi.
Vinnumálastofnun hefur tvö síðustu ár, 2015 og 2016, haft málefni Primera Air Nordic til skoðunar. Hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að starfsemin falli ekki undir lög nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og heldur ekki undir lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur. „Niðurstaða okkar er sú sama í bæði skiptin, að það eru ekki nægileg gögn fyrir hið opinbera til að grípa til aðgerða. Við getum ekkert gert ef við höfum ekkert í höndunum sem virkjar lagaheimildir okkar,“ segir Unnur Sverrisdóttir, aðstoðarforstjóri VMST. Hún segir málið snúast um það hvort flugliðar í áhöfnum til og frá Íslandi hafi starfsstöð hér á landi eða ekki, en um það séu ekki næg gögn. „Við höfum skoðað þetta frá öllum hliðum. Ég tel mjög gott að þetta mál sé nú komið í þennan farveg vinnuréttar,“ segir hún og vísar til boðaðrar vinnustöðvunar. Stjórnsýslan geti ekki gert meira og því sé eðlilegra að stéttarfélög taki við fyrir hönd starfsfólks.
Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, segir að vilji erlend fyrirtæki starfa á Íslandi gildi um það lög og reglur og þau eigi að gilda um Primera einnig. „Ein af þeim skyldum sem þessi fyrirtæki hafa er að borga laun og veita réttindi í samræmi við reglur hér á landi. Aftur á móti hefur Vinnumálastofnun ekki brugðist við með þeim hætti sem stofnunin á að gera að okkar mati,“ segir Magnús, en ASÍ hefur gert alvarlegar athugasemdir við niðurstöður VMST.
Andri Már Ingólfsson, eigandi og forstjóri Primera Travel Group, sem er móðurfélag Primera Air Nordic, telur málið stórmerkilegt og kallar gagnrýni ASÍ og FFÍ órökstuddan rógburð. „Þetta er bara skemmdarstarfsemi á viðskiptum okkar á Íslandi og við erum að skoða skaðabótamál á hendur formanni Flugfreyjufélagsins vegna ósanninda í fjölmiðlum. Ábyrgð fylgir orðum.
Við erum með starfsstöðvar úti um alla Evrópu og starfsstöðin á Íslandi er mjög lítil í samhengi við umfang starfsemi okkar. Þær áhafnir sem vinna á Íslandi eru að koma tímabundið, oftast í 6-8 vikur í senn, og í flestum tilfellum er þetta fólk sem sækist eftir tilbreytingu og vill koma og vinna á Íslandi í nokkrar vikur á ári. Það eru hrein ósannindi þegar fullyrt er að starfsfólk okkar sé að starfa undir lágmarkslaunum og fólk sé að starfa hér jafnvel með ólögmætum hætti, og ég furða mig á því að fjölmiðlar skuli birta slíkar fullyrðingar gagnrýnislaust.“
Hann segir það af og frá að starfsfólk njóti ekki réttinda. Unnið sé eftir evrópskum reglum og Primera lúti eftirliti flugmálayfirvalda í Lettlandi og Danmörku. „Þar hefur aldrei fallið skuggi á starfsemi okkar í 10 ár,“ segir Andri Már.
„Það sérstaka í þessu er að það er enginn félagsmaður í Flugfreyjufélagi Íslands í vinnu hjá okkur, þannig að við áttum okkur ekki alveg á hverjir ætla í verkfall. Þetta er eins og ég myndi boða verkfall í álverinu. Það er enginn starfsmaður í álverinu sem tengist mér eða fyrirtæki mínu og þar hef ég enga lögsögu. Það eru engar forsendur fyrir Flugfreyjufélagið að boða verkfall hjá okkur.
Með sama hætti ætti Flugfreyjufélagið að boða verkfall hjá Easyjet, sem er með flest flug til Íslands frá Englandi. Eða Norwegian, sem er erlent félag með erlendar áhafnir. Ég held að allir sem vilja skoða staðreyndir málsins sjái hvernig þessi málatilbúnaður er, og mín vonbrigði í þessu eru að fjölmiðlar skuli hingað til hafa apað þetta eftir án skoðunar. Vinnumálastofnun var búin að úrskurða um málið fyrir tveimur árum og FFÍ og ASÍ var gert að birta úrskurð hennar opinberlega. Það er tímabært að gera það aftur.“
Andri Már segir að verið sé að vinna greinargerð um málið af hálfu Primera sem birt verði málsaðilum á næstu dögum.