„Breytingarnar sem hafa verið gerðar eiga meðal annars að skila því að óæskilegar lofttegundir eyðist frekar og skili sér síður út í andrúmsloftið,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri á Umhverfisstofnun. Stefnt er að gangsetningu regnbogaofns kísilmálverksmiðju United Silicon hf. í Helguvík í dag kl. 16, með samþykki Umhverfisstofnunar.
Úrbætur hafa verið gerðar á ofninum auk ýmissa annarra framkvæmda sem farið var í, að sögn United Silicon hf., sem fór meðal annars eftir úttekt norska ráðgjafarfyrirtækisins Multikonsult. Fyrirtækið mun halda áfram að starfa með United Silicon hf. á meðan ofninn er að komast á full afköst.
Umhverfisstofnun fylgist náið með gangi mála og metur árangur úrbótanna. Fyrirtækið þarf meðal annars að senda daglega inn afrit sem sýnir afl ofnsins, sýni verða tekin til greiningar og fylgst verður með kvörtunum um lyktarmengun, að sögn Sigrúnar.
Ofninn hefur ekki verið í gangi frá því að eldur kom upp í kísilmálmverksmiðjunni þriðjudaginn 18. apríl. Viku síðar sendi Umhverfisstofnun frá sér tilkynningu um að stofnunin hefði stöðvað rekstur verksmiðjunnar vegna ítrekaðrar lyktarmengunar og að ofninn yrði ekki ræstur aftur nema að gefnu leyfi og í samráði við stofnunina.