Tæplega 37% landsmanna þekkja tilvik þar sem barni hefur verið synjað að einhverju eða öllu leyti að umgangast annað foreldri sitt. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup um tálmanir.
Alls sögðust 12,7% þekkja barn sem hefði að öllu leyti verið synjað að umgangast annað foreldri sitt, en 24% sögðust þekkja barn sem hefði að hluta verið synjað umgengni við annað foreldri.
„Niðurstöðurnar eru sláandi, en koma okkur í sjálfu sér ekki á óvart og eru í takt við það sem sérfræðingar erlendis segja,“ segir Heimir Hilmarsson, formaður Félags um foreldrajafnrétti, í tilkynningu.
„Þetta eru í raun fyrstu marktæku tölur um hversu algengar tálmanir eru hér á landi. Eldri tölur voru frá árinu 2008 og gáfu til kynna að um 500 tálmunarmál væru í gangi hjá sýslumannsembættum á hverjum tíma. Miðað við þann fjölda sem leitar til okkar og hversu mikið við heyrum af þessum málum hefur alltaf verið ljóst að fjöldinn er mun meiri og það staðfestir þessi nýja könnun.“
Könnunin var gerð fyrir Félag um foreldrajafnrétti í tengslum við ráðstefnuna Leyfi til að elska – ráðstefna um foreldraútilokun sem fram fór í Háskólabíó í síðustu viku. Fjöldi sérfræðinga um foreldraútilokun hélt erindi á ráðstefnunni, bæði innlendir og erlendir.
Hér má sjá myndbönd frá ráðstefnunni.
Þættir eins og menntun, laun, lífsstíll og búseta hafa ekki áhrif á hvort fólki þekkir til tálmunarmála. Það bendir til að foreldraútilokun og tálmanir eigi sér stað þvert á samfélagið.
„Þetta er stórt samfélagsmein sem hefur víðtækar afleiðingar, sérstaklega fyrir börnin sem alin eru upp við þessar aðstæður sem flokkast undir ofbeldi. Afleiðingarnar eru kvíði, þunglyndi og sjálfsskaði, svo eitthvað sé nefnt. Þær geta leitt til fíkniefna- eða áfengisneyslu og þessi börn eiga gjarnan erfitt með að eignast maka á fullorðinsárum eða að halda í ástarsambönd. Afleiðingarnar eru alvarlegar,“ segir Heimir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur fram að Félag um foreldrajafnrétti fagni þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um foreldraútilokun og tálmanir. „Nauðsynlegt er að opna þessa umræðu til að hægt sé að vekja fólk til vitundar um og vinna bug á því ofbeldi sem börn í þessum aðstæðum verða fyrir,“ segir í tilkynningunni.