Vegagerðin lítur svo á að Reykjavíkurborg beri að fjármagna aukinn kostnað af lagningu Sundabrautar verði ódýrasta lausnin ekki valin. Hér getur verið um tíu milljarða króna kostnað að ræða.
Þetta álit Vegagerðarinnar kemur fram í bréfi sem Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hefur sent umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.
Lagning Sundabrautar hefur verið til umræðu í áratugi. Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa unnið að þessu verkefni sameiginlega frá árinu 1995. Um er að ræða veg sem liggja mun frá Reykjavík yfir sundin til Kjalarness. Þetta verður þjóðvegur í þéttbýli og því á kostnaður að greiðast úr ríkissjóði. Á þessu getur orðið undantekning eins og fram kemur síðar í fréttinni.
Vegagerðin vill innri leiðina
Mismunandi áherslur hafa verið hjá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg um það hvaða leið skuli valin frá Reykjavík yfir í Gufunes.
Vegagerðin vill fara svokallaða innri leið (eyjalausn), sem myndi liggja frá Geldinganesi yfir í Gufunes. Reykjavíkurborg hefur hins vegar ákveðið að Sundabrautin verði á svokallaðri ytri leið, þ.e. úr Kleppsbakka yfir í Gufunes.
Í bréfinu segir vegamálastjóri orðrétt: „Nú hafa Vegagerðinni borist fregnir af því að borgin hafi úthlutað lóðum á Gelgjutanga, sem er í vegastæði innri leiðar Sundabrautar og mun uppbygging þar útiloka að hægt verði að velja þann kost fyrir Sundabraut.“
Hér er vegamálastjóri að vísa til samnings sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerði við fasteignafélagið Festi ehf. í mars sl. um uppbyggingu 332 íbúða í fimm húsum á Gelgjutanga. Fasteignafélagið Festir er í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar athafnamanns og Ingibjargar Kristjánsdóttur.
Í bréfi vegamálastjóra kemur fram að Reykjavíkurborg hafi frá árinu 2014 látið vinna deiliskipulag af svokallaðri Vogabyggð. Vegagerðin hafi gert athugasemdir við þessa vinnu á öllum stigum hennar, þar sem lögð var megináhersla á að ekki yrði ráðstafað lóðum norður að Kleppsmýravegi fyrr en fyrir lægi samkomulag milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.
Orðrétt segir í bréfi Hreins Haraldssonar:
„Í erindi Vegagerðarinnar til skipulagssviðs borgarinnar dagsett 26. febrúar 2014 er m.a. vakin athygli borgarinnar á ákvæði 2. mgr. 28. greinar Vegalaga nr. 80/2007, en þar segir: „Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega.“ Umrætt lagaákvæði var ítrekað í síðari erindum Vegagerðarinnar um málið.
Heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun
Í 3. málsgrein vegalaga segir svo:
„Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.“
Það er með vísan til framangreinds ákvæðis sem vegamálastjóri segir að Vegagerðin líti svo á að borgin eigi að fjármagna aukinn kostnað. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að Vegagerðin hefði ekki látið kostnaðarmeta mismunandi leiðir nýlega. „Á fyrri stigum var yfirleitt um sameiginlega vinnu okkar og Reykjavíkurborgar að ræða. Fyrri áætlanir hafa síðan verið færðar upp til verðlags, án þess að vinna þær aftur upp frá grunni,“ segir Hreinn.
Munar milljörðum króna
Kostnaðaráætlanir sýndu að ytri leið var um 50% dýrari en eyjalausn þegar þær voru síðast gerðar fyrir báðar leiðir á sambærilegum forsendum. „Kostnaðaráætlun fyrir ytri leið yfir Kleppsvík hefur verið uppfærð til verðlags 2016/2017 og hljóðar upp á 27 milljarða króna. Innifalin í þeirri kostnaðaráætlun eru ekki mislæg gatnamót á Sæbraut. Út frá ofansögðu má áætla kostnað við eyjalausn á innri leið yfir Kleppsvík á 16-20 ma.kr. eða mismunakostnað af stærðargráðunni 10 ma.kr,“ segir Hreinn.
Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 21. mars síðastliðinn var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hefja viðræður við ríkið vegna Sundabrautar. Markmið viðræðnanna fælist í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina.
Borgarráð samþykkir að auglýsa deiliskipulag Gelgjutanga
Borgarráð samþykkti á fimmtudaginn tillögu umhverfis- og skipulags að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Vogabyggðar 1 á Gelgjutanga.
Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins bókaði að hann minnti enn og aftur á að með skipulagi á Gelgjutanga væri komið í veg fyrir að svokölluð innri leið Sundabrautar væri möguleg. Með því að skipuleggja byggð á öllum Gelgjutanga væri Reykjavíkurborg að auka kostnað við lagningu Sundabrautar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Stefna borgarstjórnar eftir ítarlegt samráð við íbúa beggja vegna Elliðaárvogs er að Sundabraut skuli vera á ytri leið í göngum. Þetta var niðurstaða allra flokka eftir ítarlega skoðun árið 2008. Innri leiðin sem vísað er til í bókun minnihlutans var ekki hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur, né heldur er hún í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, og var sú afstaða einnig þverpólitísk.“