Breyta ekki nafni listaverks Ásmundar

Ásmundur Sveinsson, Negri.
Ásmundur Sveinsson, Negri. mynd/Listasafn Reykjavíkur

Sýningin „List fyrir fólkið“ opnaði í Ásmundarsafni Listasafns Reykjavíkur um helgina. Til sýningar er málmskúlptúr eftir Ásmund sjálfan. Skúlptúrinn er titlaður Negri. Verkið hefur áður verið sýnt undir öðrum titli. Í þetta sinn verður nafni verksins ekki breytt.

Sýningin er helguð Ásmundi Sveinssyni (1893-1982) og verkum hans sem spanna langan feril. Málmskúlptúrinn Negri er hluti sýningarinnar. Verkið er af nöktum svörtum manni og vann Ásmundur það sem skólaverkefni, þegar hann stundaði nám í Académie Julien í París árið 1928.

Undanfarin ár hafa titlar af þessari gerð verið umdeildir. Þar má nefna umfjöllun um endurútgáfu bókarinnar Negrastrákarnir og hvort hún ætti yfir höfuð rétt á sér. Þá var talið álitaefni hvort orðanotkun af þessari gerð myndi auka kynþáttafordóma.

Stjórnandi sýningarinnar, Ólöf K. Sigurðardóttir, segir málið vera snúið. „Við vorum búin að ræða þetta alveg rosalega mikið. Við erum búin að fara í marga hringi með þetta,“ segir Ólöf.

Hún segir það hafa komið til greina að birta verkið undir öðru nafni. „Við veltum breytingunni fyrir okkur, helst af tillitsemi við ákveðna gesti, ef að þessi titill væri hlaðinn gagnvart þeim.“

Heiti verksins hefur verið breytt áður og hefur þá verið sýnt undir titlinum Svertingi. Ólöf ítrekar að notkun beggja heita sé þó undir sama flokki og enginn munur sé á gildi þeirra. „Tilgangur heitanna er eingöngu að lýsa þessum einstaklingi sem verkið er af, út frá kynþætti.“

Að lokum var tekin sú ákvörðun að halda nafni skúlptúrsins. Ólöf segir nauðsynlegt að skoða titilinn út frá tíðaranda höfundar. „Við ákváðum að setja nafnið fram í trausti þess að menn horfi til þess að verkið er gert árið 1928 og setji verkið í það samhengi. Meining listamannsins er ekki á nokkurn hátt neikvæð, ef litið er til þess tíma og tíðaranda sem hann lifir á. Við ákváðum þess vegna að halda nafninu,“ segir Ólöf.

Þar hafi verið tekið tillit til friðhelgi listamannsins og því hvort breyta megi sköpunarverkum annarra í nafni breyttra sjónarmiða. „Við spurðum okkur hvort það sé okkar hlutverk að endurskoða það sem skapað hefur verið á ákveðnum tíma út frá breyttum viðhorfum annars tíma. Ég kann þó ekki lokasvarið við því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert