Viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar verður ekki hækkað hér á landi í kjölfar sjálfsvígsárásarinnar í Manchester í gærkvöldi. 22 létu lífið en árásin var gerð á tónleikum Ariönu Grande.
„Við fórum yfir þetta mál í morgun, allir helstu sérfræðingar embættis ríkislögreglustjóra,“ segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri í samtali við mbl.is. „Við höfum fengið ákveðnar upplýsingar frá lögreglunni í Bretlandi og okkar niðurstaða er sú að halda óbreyttu stigi hér heima.“
Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni í morgun.
Spurður hvort unnið væri eftir sérstakri áætlun ef árás yrði gerð hér á landi segir Haraldur að svo sé. Lögreglan er með sérstakt viðbúnaðarskipulag og þá hefur þjálfun lögreglumanna verið aukin undanfarin þrjú ár.
„Við vinnum eftir okkar áætlunum. Liður í þeim er að kalla saman þennan hóp og fara yfir málin og meta stöðuna. Eins og staðan er núna var það mat okkar að það þyrfti ekki að hækka viðbúnað á þessu stigi.“