Lúsugur lax fer á lyf

Æðarvarp.
Æðarvarp. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bóndi á bænum Grænuhlíð í Arnarfirði hefur verulegar áhyggjur af því að lyf, sem verða gefin við laxalús í sjókvíum í eldisstöð í Arnarfirði, muni hafa áhrif á lífríkið í kring. Um það bil 500 metra frá sjókvínni er stórt æðarvarp sem telur um 2.600 fullorðna fugla. Um mánaðamótin komast ungarnir á legg og þurfa mikið æti sem er sótt í sjóinn.

„Þetta er svívirða. Maður er alinn upp við það að láta náttúruna alltaf njóta vafans og það er verið að nota eitur sem getur haft áhrif á lífkeðjuna,“ segir Víðir H. Guðbjartsson, bóndi í Grænuhlíð í Arnarfirði. Hann bendir á að aðalfæða hjá æðarfuglinum er meðal annars kræklingur.

Fyrsta skipti gefin lyf við laxalús í níu áratugi

Matvælastofnun samþykkti umsókn um lyfjameðhöndlun við laxalús í síðustu viku. Fjölgun laxalúsarinnar er meðal annars rakin til þess að hitastig sjávar hefur hækkað og löxum hefur fjölgað. Sem dæmi var meðalhiti sjávar í Arnarfirði 3,5°C í febrúar á þessu ári en 1,5°C á sama tíma í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum sem gripið hefur verið til lyfjameðhöndlunar gegn laxalús á Íslandi.

„Lyfið hefur engin áhrif á spendýr, fugla og örverur og mjög takmörkuð áhrif á hryggleysingja og fiska og til dæmis engin áhrif á krækling,“ segir Sigríður Gísladóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun. Hún bendir á að áhrif lyfsins á krækling hafi verið rannsökuð í bak og fyrir bæði úti í náttúrunni og í tilraunastofu. Í þeim rannsóknum kom í ljós að áhrifin eru engin á krækling. 

Það tekur um 100 daga fyrir lyfið að brotna alveg niður í náttúrunni. Eftir 10 daga er minna en 10% eftir af því og það dreifist hratt í sjó. Lyfið safnast ekki fyrir í náttúrunni heldur brotnar það alveg niður og að endingu niður í CO2. 

Sigríður tekur fram að þegar lyf er valið er alltaf haft í huga að velja lyf og aðferðir sem hafa sem minnst áhrif á lífríkið og umhverfið. Laxalús hefur fylgt laxinum. 

Sigríður bendir á að þar sem lax er þá er laxalús til staðar. Þar sem laxi hefur fjölgað almennt hefur smitálag aukist eftir því. Það á jafnt við um villta laxa sem og eldislax. 

Lax tilbúinn í pökkun.
Lax tilbúinn í pökkun. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Hertar reglur yrðu til trafala

Engar sérstakar reglur gilda um eftirlit með laxalús í eldislaxi umfram hefðbundið eftirlit, það er að segja það eru engin tiltekin mörk sem laxalúsin þarf að fara yfir. Að mati Sigríðar telur hún að ekki þurfi að herða reglur sem varða eftirlit með laxalús. 

„Hættan við að setja ákveðin mörk og herða eftirlit er að það muni fjölga meðhöndlunum og mögulega ýta undir lyfjaónæmi hjá laxalúsinni. Við teljum að við séum í góðri stöðu til að taka stefnu sem hvetur fyrirtækin til að nota blandaðar fyrirbyggjandi aðgerðir. Laxeldi er að stækka og við höldum áfram að vera vakandi og í góðri samvinnu við fiskeldið,“ segir Sigrún. 

Laxeldi í sjókvíum.
Laxeldi í sjókvíum. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert