Nýju átaki verður hrint af stað á Keflavíkurflugvelli í sumar þar sem innritun fyrir farþega Icelandair, WOW og Primera verður opnuð á miðnætti. Til stendur að gera tilraun með verkefnið í júní og ef vel gengur verður því áframhaldið.
Staðan hefur verið þannig síðustu misseri að um 150 til 200 farþegar dvelja að jafnaði í flugstöðinni á nóttunni á meðan þeir bíða eftir að geta innritað sig í morgunflug. Talið er að þessi farþegafjöldi geti farið allt upp í 300 til 400 í sumar.
Með átakinu mun létta á morgunálagi í innritun, en þar skapast gjarnan örtröð og langar biðraðir. Farþegar munu þá komast fyrr leiðar sinnar inn í fríhöfn og á veitinga- og þjónustustaði, sem verða langflestir opnir á þessum tíma.
Allrahanda og Kynnisferðir, sem bjóða upp á ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli, munu fjölga ferðum sínum í kringum miðnætti í takt við þarfir farþega.