Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og áður forsætisráðherra, boðar stofnun nýs félags, Framfarafélagsins, sem stuðla á að framförum á öllum sviðum samfélagsins. Að félaginu kemur fólk víða að úr samfélaginu; framsóknarmenn, fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum og fólk sem hefur ekki haft formleg afskipti af stjórnmálum.
„Það má líklega segja að þetta sé nokkurs konar sambland þjóðmálafélags og hugveitu og tilgangur þess er að skapa vettvang fyrir frjálsa umræðu fyrir hin ýmsu samfélagsmál, þar sem hægt verður að koma á framfæri hugmyndum og lausnum við þeim vandamálum sem samfélagið stendur frammi fyrir og hvernig við getum nýtt sem best þau tækifæri sem okkur bjóðast,“ segir Sigmundur Davíð sem verður formaður félagsins.
Ertu með þessu að stofna nýjan stjórnmálaflokk? „Nei, alls ekki. Félagið mun sjálfsagt þróast með tímanum og láta til sín taka á ýmsan hátt, en þetta er ekki stofnað sem stjórnmálaflokkur. Vonandi geta hins vegar stjórnmálaflokkar nýtt sér það sem þarna verður til og ég vona sérstaklega að flokkurinn minn geri það.“
Sigmundur Davíð segir að með Framfarafélaginu haldi áfram þróun sem hann hefur viljað innleiða í Framsóknarflokknum. „Strax, þegar ég bauð mig fram þar til forystu árið 2009, lagði ég áherslu á að við ættum að vera opin fyrir því að leita hugmynda út fyrir flokkinn, hjá hverjum þeim sem þekkti best til á hverju sviði fyrir sig. Mörgum þótti þetta gefast vel og við viljum halda þessu áfram, halda þessari grósku lifandi. Ég taldi stofnun nýs félags vænlega leið til þess.“
Hann segir Framsóknarflokkinn vera laskaðan eftir þau átök sem verið hafa innan hans síðustu mánuðina. „Fá tækifæri eru fyrir hinn almenna flokksmann í grasrótinni til að láta til sín taka. Ósætti og skortur á samstöðu stendur í vegi fyrir því að flokkurinn geti þróast áfram og orðið að sterku hreyfiafli í íslensku samfélagi,“ segir Sigmundur og leggur áherslu á að félaginu sé ætlað að starfa um land allt, ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu.
Núna ert þú þingmaður Framsóknarflokksins og leiddir lista flokksins í NA-kjördæmi í síðustu alþingiskosningum, þar sem flokkurinn er með einna mest fylgi. Hefðir þú ekki getað fundið þessum hugmyndum farveg innan flokksins? Var þörf á að stofna sérstakt félag utan flokksins? „Já, eins og staðan í flokknum er núna er þröngt um það. Ég hef ekki vettvang innan flokksins eins og sakir standa núna til að beita mér með þessum hætti. En ég vona að sem flestir framsóknarmenn taki þátt í þessu. Ég vonast til þess að þetta muni styðja við grasrótina í flokknum.“
Hverjir aðrir koma að stofnun félagsins? „Það er hópur framsóknarmanna og fólks annars staðar að. Mér finnst ekki rétt að nefna einhverja umfram aðra.“ Eru fyrrverandi eða núverandi þingmenn eða ráðherrar flokksins meðal þeirra? „Ætli við látum það ekki bara koma í ljós á stofnfundinum á laugardaginn, en framhaldsstofnfundur Framfarafélagsins verður kl. 11 á laugardaginn í Rúgbrauðsgerðinni og er öllum opinn. Félagið var reyndar stofnað þann 1. maí síðastliðinn og það er engin tilviljun þar sem það er fæðingardagur Jónasar frá Hriflu.“
Að sögn Sigmundar verður þema fundarins framtíðin og þar mun hann halda erindi um þróunina í stjórnmálum; hvernig þau hafa breyst og munu breytast næstu árin og áratugina. „Ég mun fara yfir reynslu mína af því hvernig landinu er stjórnað. Gestafyrirlesari verður Eyþór Arnalds sem talar um hvernig tækniþróunin hefur breytt innviðum samfélagsins og hvernig við þurfum að búa okkur undir þær breytingar.“
Ítarlegt viðtal verður í Morgunblaðinu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson á morgun þar sem hann ræðir m.a. stofnun Framfarafélagsins, stöðu Framsóknarflokksins í dag, atburðina á síðasta flokksþingi flokksins þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskjörinu, óánægjuna sem kom fram á fundi miðstjórnar flokksins á laugardaginn og pólitíska stöðu sína og framtíð.