„Það hallar verulega á konur“

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum ekki tekið formlega afstöðu til tillögunnar,“ segir Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra í samtali við mbl.is. Dóm­nefnd um um­sækj­end­ur um embætti 15 dóm­ara við Lands­rétt hef­ur skilað dóms­málaráðherra um­sögn sinni en nefndin mælir með tíu körlum og fimm konum.

Embætt­in voru aug­lýst laus til um­sókn­ar 10. fe­brú­ar með um­sókn­ar­fresti til 28. fe­brú­ar. Alls sóttu 37 um embætt­in en þrír drógu um­sókn­ir sín­ar til baka. Dóm­nefnd­ina skipa Gunn­laug­ur Claessen, Guðrún Björk Bjarna­dótt­ir, Hall­dór Hall­dórs­son, Ingi­björg Pálma­dótt­ir og Valtýr Sig­urðsson. Miðað er við að gengið verði frá skipun dómaranna í embætti ekki síðar en 1. júní.

Þorsteinn segir að hæfnisnefnd sé falið að leggja mat á hæfni hvers umsækjanda fyrir sig en einnig eigi að hafa jafnréttissjónarmið til hliðsjónar. „Það sést í þessu tilviki að það hallar verulega á konur og maður hefði viljað sjá ákveðnar aðgerðir til að reyna að bæta úr þessum mikla kynjahalla sem er innan dómarastéttarinnar.“

Ráðherra segir það gefa auga leið að hann hefði viljað sjá hlutföllin jafnari. „Við þurfum bara að leggjast vel yfir hvað liggur að baki.“

Dómarar við dómstóla eigi að mati Þorsteins að endurspegla samfélagið sem við búum í. „Hvernig tryggjum við það í þessum hæfnisskilgreiningum sem lagðar eru til grundvallar við val á dómurum, héraðsdóm, landsrétti eða hæstarétt, að við náum betra kynjajafnrétti heldur en raun ber vitni í dag og að dómstólar endurspegli samfélagið? Ég tel að það sé mikilvægt mál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert