Lítrinn á díselolíu hjá Costco hefur lækkað úr 164,9 krónum niður í 161,9 krónur. Brett Vigelskas, framkvæmdastjóri Costco á Íslandi, staðfestir að verðið hafi lækkað um þrjár krónur.
Er verðið töluvert lægra en hjá íslensku olíufélögunum. Samkvæmt síðunni bensinverd.is er lítrinn hjá íslensku olíufélögunum af díselolíu ódýrastur hjá sérstökum X-stöðvum Orkunnar eða í 170,6 krónum, sem er 8,7 krónum hærra en hjá Costco.
Lítrinn af bensíni hjá Costco kostar 169,9 krónur, sem er einnig töluvert lægra verð en hjá íslensku olíufélögunum. Lítrinn hjá íslensku olíufélögunum af bensíni er ódýrastur hjá X-stöðvum Orkunnar eða í 185,7 krónum, sem er 15,8 krónum hærra en hjá Costco. Hjá öðrum stöðvum Orkunnar kostar lítrinn 197,8, 197,9 hjá Atlantsolíu og ÓB, 199,4 hjá Skeljungi og 199,9 hjá N1 og Olís.