„Ég hef aldrei tjáð mig um áhöfn Baldurs, nema jú til að hrósa henni. Það hef ég ítrekað gert,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is. Hann er afar ósáttur við orð Halldórs Jóhannessonar, yfirstýrimanns á Breiðafjarðarferjunni Baldri, sem skrifaði opið bréf sem birtist á fréttamiðlinum Eyjar.net fyrr í dag. Þar er hann harðorður í garð Elliða og vill að hann biðjist afsökunar „á þeim endalausu leiðindum og skítkasti“ sem hann vill meina að bæjarstjórinn hafi „viðhaft opinberlega og víðar“ í garð áhafnarinnar.
Elliði segir þetta alrangt og svarar Halldóri í opnu bréfi á Eyjar.net. Þar segir meðal annars: „Þú fullyrðir hins vegar að ég hafi verið með „skítkast og leiðindi“ í garð áhafnar Baldurs. Það eru í mínum huga alvarlegar aðdróttanir enda hef ég bæði í ræðu og riti hrósað áhöfninni fyrir að standa sig afar vel við erfiðar aðstæður og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bæta ástandið. Ég hef siglt með skipinu og átt persónuleg samskipti við áhöfnina og veit að þar er sómafólk sem vinnur vinnu sína vel.“
Frétt mbl.is: Ekki boðlegt að nota Baldur
Í samtali við mbl.is segist Elliði aldrei hafa átt persónuleg samskipti við Halldór sjálfan og það sé alrangt að hann hafi hallmælt áhöfn Baldurs í hans eyru eða annars staðar.
„Ég hef aldrei átt persónuleg samskipti við þennan mann. Mikið hefði mér þótt gott ef hann hefði rætt við mig, ef ég hef sagt eitthvað um áhöfn Baldurs sem honum mislíkaði. Það er auðvitað engan veginn eðlilegt að einstaklingar séu látnir taka ábyrgð á gjörðum stjórnvalda.“
Elliði segir það hins vegar þekkt að hann sé afar ósáttur við framgöngu Vegagerðarinnar gagnvart Vestmannaeyjum og Eyjamönnum. „Ég hef gagnrýnt samgönguyfirvöld fyrir það að senda hingað skip sem ekki er með haffæri til siglinga í Þorlákshöfn. Þetta er í fyrsta skipti sem það er gert. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það. Þetta hefur valdið okkur verulegu tjóni. Það hefur ekkert með áhöfn skipsins að gera. Hún er dásamleg, kurteis og harðdugleg. Það sjáum við öll. Þetta snýst um hvernig skipið er,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.
Í bréfinu til Halldórs bendir hann meðal annars á að bókunarkerfið hafi verið vonlaust, gjaldskráin of há og ferðir of fáar. Það hafi valdið Eyjamönnum tugmilljónatjóni. „Sigling milli Lands og Eyja er ekki útsýnissigling sem fallið getur niður án teljandi tjóns. Þetta er þjóðvegur. Því þótti mér og þykir enn vond ákvörðun að láta ferjuna Baldur, sem ekki hefur haffæri til siglinga í Þorlákshöfn, leysa Herjólf af. Ég hef séð skaðann af þessari ákvörðun fyrir íbúa og fyrirtæki hér í Eyjum. Ég veit að sú ákvörðun er búin að valda okkur gríðarlegu tjóni og skiptir þá einu hvaða áhöfn er þar um borð. Sitji einhver bæjarstjóri eða pólitískur fulltrúi undir slíku þegjandi og hljóðalaust er hann að bregðast umboði sínu,“ segir í bréfi Elliða til Halldórs.
Hann finnur einnig til með samfélaginu fyrir vestan, að missa Baldur úr sinni þjónustu. „Þetta er ekki bara arfavitlaus ákvörðun gagnvart Eyjamönnum heldur líka samfélaginu fyrir vestan.“