Mikil örtröð í Costco

Mikil örtröð er við verslunina.
Mikil örtröð er við verslunina. mbl.is/Ófeigur

Mikil örtröð hefur verið við Costco í Kauptúni í Garðabæ síðan í morgun og ljóst er að fjölmargir hafa nýtt sér þennan frídag til að gera sér ferð í verslunina. Röð viðskiptavina hefur verið inn í verslunina síðan hún opnaði í morgun klukkan tíu.

Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóri Costco á Íslandi, segir að margt hafi verið um manninn í allan dag. Allt hafi þó gengið vel fyrir sig. Við opnunina í morgun hafi margir viðskiptavinir verið komnir og beðið eftir að dyrnar yrðu opnaðar. 

Sátu fyrir kerrum annarra viðskiptavina

Að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem var á svæðinu í morgun var einungis viðskiptavinum með kerru hleypt inn í verslunina. Ekki var hins vegar nóg af innkaupakerrum fyrir alla og þurfti fólk því að bíða eftir að þeir sem voru búnir að versla skiluðu sínum kerrum. Sátu spenntir viðskiptavinir því fyrir kerrum annarra sem höfðu gert reyfarakaup og prísuðu sig sæla þegar þeir loksins komust inn í verslunina.

Setið er um kerrur fyrir utan verslunina.
Setið er um kerrur fyrir utan verslunina. mbl.is/Ófeigur

Biðin í röðinni inn í verslunina hefur verið allt frá 20 mínútum upp í klukkustund í dag samkvæmt viðskiptavinum sem mbl.is hefur rætt við, en mikil stemning er þó á svæðinu. Þá hefur röðin á búðarkassa verslunarinnar gengið hratt.

Mannskapur frá lögreglu á svæðinu

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá um­ferðardeild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, segir að lögreglan hafi verið með eftirlit á svæðinu síðustu daga og fylgist vel með umferðinni. Starfsfólk Costco stjórni umferðinni á bílastæðinu en mannskapur frá lögreglu sé við gatnamótin. Þá staðfesti Ómar að röð bíla á svæðinu hefði verið mjög löng í morgun þegar hann var á svæðinu og náð að Vífilsstöðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert