Reynir Grétarsson á 80% í Creditinfo Group. Hann seldi 10% hlut í fyrra til Compusan, stærsta sjálfstætt starfandi lánshæfismatsfyrirtæki Afríku, og ætlar að selja önnur 10% síðar á þessu ári.
Hvað gerirðu við peningana sem þú færð út úr sölunni? Stefnirðu að því að verða fjárfestir að atvinnu? „Ég hef aldrei tekið neitt út úr fyrirtækinu. Hluti af því sem fékkst við söluna í fyrra fór í að greiða upp lán, og svo lánaði ég fyrirtækinu fjármuni til baka, keypti mér eitt einbýlishús, og þar með var peningurinn nánast búinn,“ segir Reynir.
Hann vonar að hann verði aldrei kallaður fjárfestir eða auðmaður. „Það er eitt sem ég geri og hef ánægju af. Ég safna gömlum Íslandskortum og hyggst opna safn með þeim síðar á árinu. Þetta eru 2-300 kort sem ég hef safnað í gegnum tíðina, og þarna á meðal eru merkilegustu kortin sem Ísland er á, fyrstu kortin frá árinu 1482, sem eru mjög fágæt,“ segir Reynir, en leit stendur nú yfir að heppilegu húsnæði í miðbæ Reykjavíkur undir safnið.
„Hugmyndin er að opna safn fyrir almenning, þar sem hægt er að skoða þessa sögu, aðallega sögu Íslands á kortum en líka almennt um kortagerð. Ég tel að þetta gæti líka verið upplagt fyrir ferðamenn.“
Auk þessa að opna safnið segist Reynir vera með bók í smíðum um prentuð kort af Íslandi, frá 1482-1850. Safnið er tugmilljóna króna virði og aðspurður segir Reynir dýrasta kortið um 15 milljóna króna virði. „Ég lít ekki á þetta sem útgjöld. Það er ekki verra að geyma peninga í gömlum hlutum, bókum, kortum og öðru, en á hlutabréfamarkaði,“ segir Reynir.