„Ég er í mjög öflugum lýðræðislegum samvinnuflokki og fæ útrás þar. Ég er hins vegar alveg ánægður með að menn finni hugsjónum sínum einhvern farveg,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Nýtt Framfarafélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar heillar hann því ekki. Félagið verður formlega stofnað á laugardag og Það kemur líklega ekki á óvart að Sigurður ætlar ekki að mæta á stofnfundinn.
Sigurður óttast ekki að stofnun Framfarafélagsins hafi þau áhrif að samtal og skoðanaskipti hluta framsóknarmanna færist yfir á vettvang félagsins. Sigmundur hefur sjálfur sagt að hann vonist til að sem flestir framsóknarmenn taki þátti í starfi félagsins og jafnframt að það muni styðja grasrótina í flokknum.
Telur Sigurður að þessi nýi vettvangur fyrir utan flokkinn muni jafnvel lægja einhverjar öldur innan hans? „Ég vona það sannarlega.“
Hann segir flokksmenn hins vegar alltaf geta komið sínum hugmyndum á framfæri innan flokksins. Það sé því ekki rétt sem Sigmundur segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að hann hafi ekki vettvang innan flokksins til að koma sínum málum á framfæri og í farveg.
„Ég tók eftir því að menn höfðu uppi þau orð að þeir fengju ekki tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri. Mér finnst það mjög sérkennilegt. Það hafa allir tækifæri til þess í hinum lýðræðislega samvinnuflokki framsóknarmanna, að taka til máls og leggja fram mál. Það hefur enginn staðið í vegi fyrir því, allra síst ég. Vilji menn hins vegar finna sér annan farveg, þá er það bara hið besta mál.“
Þannig að Sigmundur hefur fengið tækifæri til að koma sínum hugmyndum í farveg innan flokksins? „Já, hann eins og hver annar.“
Í Morgunblaðinu í dag lýsir Sigmundur tilgangi Framfarafélagsins: „Það má líklega segja að þetta sé nokkurs konar sambland þjóðmálafélags og hugveitu og tilgangur þess er að skapa vettvang fyrir frjálsa umræðu fyrir hin ýmsu samfélagsmál, þar sem hægt verður að koma á framfæri hugmyndum og lausnum við þeim vandamálum sem samfélagið stendur frammi fyrir og hvernig við getum nýtt sem best þau tækifæri sem okkur bjóðast.“