Enn löng röð fyrir utan Costco

Röðin nær nú hálfhring í kringum verslunina.
Röðin nær nú hálfhring í kringum verslunina. Aðsend mynd

Svo virðist sem áhugi Íslendinga á Costco sé enn að aukast, en löng röð hafði myndast fyrir utan verslunina áður en hún opnaði klukkan 10 í morgun. Röðin nær núna hálfhring í kringum verslunarhúsnæðið og bílalest er úr Reykjavík að Kauptúni í Garðabæ.

Íslenskir neytendur, sem hafa nú þegar farið í Costco og gert góð kaup, hafa verið duglegir að deila myndum og upplýsingum um verð á samfélagsmiðlum. Má leiða að því líkur að það auki áhuga annarra enn frekar. Það er alla vega ljóst að það verður ekki rólegt í versluninni í dag.

Mikil örtröð var einnig í versluninni í gær og margir nýttu frídaginn í að versla og skoða sig um. Ástandið var þannig á tímabili að ekki var nóg af kerrum fyrir alla, en kerra er skilyrði fyrir því að komast inn í verslunina. Viðskiptavinir sátu um þá sem höfðu lokið við að versla og stukku á hverja kerru sem losnaði. Allt mun þó hafa gengið vel og virtust flestir glaðir þegar þeir loksins komust inn í verslunina og gátu litið dýrðina augum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert