Íbúar í Costco-hverfi komast ekki heim

Íbúar í Urriðaholti hafa ekki farið varhluta af því mikla …
Íbúar í Urriðaholti hafa ekki farið varhluta af því mikla umferðaröngþveiti sem skapast hefur í kringum Costco mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið umferðaröngþveiti hefur skapast í kringum Kauptún í Garðabæ síðustu daga eftir að Costco opnaði þar verslun sína á þriðjudag. Þegar verst hefur látið hefur bílalestin náð alla leið að Vífilsstöðum og íbúar í Urriðaholtshverfi hafa átt erfitt með að komast heim til sín.

„Það er alltaf brjáluð umferð upp beygjuakreinarnar í báðar áttir. Í gær var nánast bílalest frá afleggjaranum af Vífilsstöðum, yfir brúna og að Costco. Það stoppar allt uppi á þessari blessuðu brú, af því að það eru ljós þar,“ segir Daði Rúnar Pétursson, íbúi í Urriðaholtshverfi fyrir ofan Kauptún í Garðabæ. Hann viðurkennir þó að það sé ágætt að hafa Costco sem hverfisverslun og vonar að eitthvað dragi úr umferðinni á næstu vikum.

„Ég giska á að þetta verði nú bara svona til að byrja með og svo lagist þetta með tímanum. Ef þeir halda samt áfram með svona gott verð verður alltaf einhver traffík.“ Daði trúir því ekki öðru en að Garðabær muni gera einhverjar ráðstafanir.

„Það eru margar stórar verslanir á sama stað; Costco, Bónus og IKEA, og eini aðgangurinn að þeim er yfir þessa brú. Svo er auðvitað heilt hverfi þarna fyrir ofan. Þetta er fullmikið.“

Létta á flæðinu

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir að engan hafi órað fyrir því að áhuginn á Costco yrði jafn mikill og raun ber vitni. „Þessi svakalega jákvæðu viðbrögð koma pínulítið á óvart, allavega dag eftir dag, en svo mun þetta væntanlega jafnast út þegar menn læra inn á þetta.“

Gunnar gerði góð kaup á golkerru í Costco í vikunni. …
Gunnar gerði góð kaup á golkerru í Costco í vikunni. Hann segir standa til að létta á flæðinu af svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurður segir Gunnar bæjaryfirvöld ekki ætla að grípa til sérstakra ráðastafna vegna þessa, en það er hins vegar á aðalskipulagi Garðabæjar að gera tengingu í gegnum Kauptúnið, framhjá Toyota-umboðinu. „Þegar það kemur mun það létta aðeins af flæðinu út af svæðinu. Aðalskipulagið okkar er í auglýsingu með þessari tengingu og í ljósi þessarar reynslu og öryggisins vegna munum við fljótlega skoða þá framkvæmd. Líka í tengslum við uppbyggingu í Setberginu.“

Það er mat Gunnars að fólk sé að sýna ótrúlegan skilning í umferðinni í kringum Costco, en hann minnist þess að umferðin hafi líka verið ansi mikil þegar verslun IKEA var opnuð í Kauptúninu á sínum tíma.

Sjálfur er Gunnar ánægður með að fá Costco í bæinn. Hann er einmitt búinn að kíkja við og gerði þar góð kaup á golfkerru. „Ég fagna fyrir hönd neytenda. Ef það er hægt að lækka vöruverð í landinu með þessu hljóta allir að fagna.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert