„Ég hefði orðið frekar leið ef mér hefði ekki gengið vel. Ég hugsaði að mér þætti ekkert leiðinlegt að verða dúx, enda er ég er með mjög mikið keppnisskap,“ segir Guðrún Sólveig Sigríðardóttir, dúx Menntaskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is, en blaðamaður náði tali af henni þar sem hún var á leið á Júbilantaball MR.
Guðrún er dóttir Sigríðar Hrafnkelsdóttur og Lother Pöpperl, en þau eru bæði myndlistarmenn. Tvíburabróðir Guðrúnar, Eiríkur Ari Sigríðarson, útskrifaðist einnig úr MR í gær.
Guðrún viðurkennir að hún hafi oft fórnað svefni fyrir lærdóminn þau fjögur ár sem hún stundaði nám við skólann, sérstaklega á lokasprettinum. Hreyfingunni fórnaði hún hins vegar ekki og var dugleg líta upp úr námsbókunum til að fara út að skokka. „Ég var reyndar líka að æfa píanóleik og í fótbolta, en ég hætti því síðasta hálfa árið. Það voru mjög margir sem hættu í íþróttum út af náminu,“ útskýrir hún.
Guðrún, sem útskrifaðist með einkunnina 9,87, sem er fjórða hæsta einkunn sem gefin hefur verið við skólann, segir að lykillinn að góðum árangri sé að vinna jafnt og þétt að markmiðinu. Það er nákvæmlega það sem Guðrún gerði, og þess vegna kom árangurinn henni í raun ekki á óvart. „Ég var ekkert í svakalegu sjokki, en ég ég bjóst kannski ekki við alveg svona hárri einkunn.“
Þrátt fyrir að námið hafi verið strembið og metnaðurinn mikill passaði hún hún sig líka að njóta tímans í skólanum. Nú langar hana hins vegar bara að slaka aðeins á eftir erfiða törn.
Næsta árið ætlar Guðrún að reyna að vinna og ferðast, áður en hún snýr sér að háskólanámi, enda er hún ekki búin að ákveða hvað hún ætlar að læra. „Ég er örugglega sú eina af náttúrufræðibraut MR sem er ekki að fara í læknisfræði, en ég er alveg ákveðin í því. Mig langar samt að læra eitthvað heilbrigðistengt, kannski lyfjafræði. Reyndar hef ég mjög vítt áhugasvið. Ég hef til dæmis mikinn áhuga á tungumálum, sem er alveg skrýtið því ég var á náttúrufræðibraut. Ég veit samt ekki hvort ég geri eitthvað með það. Ég ætla alla vega aðeins að slaka á núna, ég nenni ekki að hugsa um þetta alveg strax.“